144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég hélt að ég væri alveg hættur að verða hissa á lítilsvirðingu hæstv. forsætisráðherra gagnvart þinginu en í þetta sinn varð ég pínulítið hissa. Þetta er óvenjuleg tegund af lítilsvirðingu en hins vegar verð ég að viðurkenna að ég er orðinn svolítið þreyttur á því að þurfa að koma hingað og lýsa því að ég sé ekki hissa á því hvernig forsætisráðherra komi fram við þingið. Það er fullkomlega mannlegt að gera mistök, kannski af og til og útskýra þau síðan eða eitthvað því um líkt, en þetta er skýrt mynstur. Nú hljóma ég eins og biluð plata, virðulegi forseti, vegna þess að þetta er skýrt mynstur og hefur verið það frá upphafi. Þetta er stanslaust og linnulaust, þetta er óþolandi, þetta er Alþingi til mikils ósóma og mér finnst enn þá skrýtnara að hæstv. forsætisráðherra sé þá ekki kominn hingað inn til að alla vega útskýra hvert hann hafi farið eða hvað hafi gerst. Við getum öll fyrirgefið, það er ég viss um, en það þarf að sýna smá virðingu, (Forseti hringir.) bara smá. Það væri heilmikið í þessu samhengi.