145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

viðbrögð stjórnvalda við skattaskjólum.

[14:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Orðstír Íslands hefur beðið hnekki og ásýnd Íslands er löskuð. Ástæðan er notkun íslenskra stjórnmálamanna á skattaskjólum og afhjúpun á eignum hæstv. ráðherra í slíkum skatta- og krónuskjólum til lengri eða skemmri tíma. Sá sem nýtir sér skattaskjól gerir það í ákveðnum tilgangi. Tilgangurinn er að leyna fjármunum og komast undan því að greiða skatta; komast hjá því að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, svo sem í vegi, sjúkrahús, menntakerfi og löggæslu.

Notkun stjórnmálamanna á skattaskjólum gefur þá ímynd að þeir séu til í að láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum. Á Íslandi á sú ímynd við um sjálfan fjármálaráðherrann. Segja má að afhjúpun Panama-skjalanna á leynimakki hæstvirtra ráðherra hafi verið eins konar vendipunktur í íslensku samfélagi. Almenningur mótmælti spillingunni og krafðist breytinga með fjölmennustu mótmælum í sögu landsins. Ég tek undir þá kröfu, herra forseti.

Við þurfum að rannsaka hverjir hafa nýtt sér skattaskjólin og komast að því hvað undanskotin hafi kostað íslenskt samfélag og velferðarkerfið með töpuðum skatttekjum. Við verðum að styrkja embætti skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra svo að þau geti sinnt hlutverki sínu hvað þetta varðar. Við eigum að vinna með öðrum þjóðum í baráttunni gegn notkun skattaskjóla og gegn skattundanskotum og smíða lög sem banna notkun skattaskjóla.

Herra forseti. Við verðum að ganga ákveðin til verks og koma í veg fyrir að notkun skattaskjóla haldi áfram að grafa undan samfélaginu, hvort sem er fjárhagslega eða siðferðislega.