145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður nefndi vetrarþjónustuna. Það er auðvitað áhyggjuefni að á henni hefur verið halli. Við höfum verið að reyna að vinna þann halla niður undanfarið og við þurfum að gera það á næstunni. Ég hygg að þjónustukrafan í vetrarþjónustu muni bara aukast. Ég held að það verði eiginlega enginn sem treystir sér til þess að draga úr þjónustunni þar. Það er ekkert grín að gera áætlanir þegar kemur að vetrarþjónustunni. Við búum við þannig árferði á Íslandi, það er þannig. En ég vil halda því til haga í ljósi umræðu um vetrarþjónustu að langmestu fjármunirnir sem fara í vetrarþjónustu eru vegna þeirra stofnæða sem liggja út úr höfuðborginni. Það er mjög dýrt að halda Reykjanesbrautinni opinni, sem hún verður auðvitað að vera, og öðrum stofnæðum út úr höfuðborginni. Ég held að ágætt sé að hafa það í huga af því að það vill oft verða þannig að þegar við förum að tala um vetrarþjónustu fara menn að tala um fjallvegi og þá sem fjær búa. (Forseti hringir.) Staðreyndin er hins vegar sú, sem kannski liggur í augum uppi þegar menn fara að hugsa um það, að (Forseti hringir.) meginþungi fjármunanna sem þarf að veita í hana rennur til stofnvega út úr höfuðborginni.