149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Hér er vissulega um að ræða mál sem er mörgum erfitt. Það breytir því ekki að það er staðreynd að þetta mál hefur hlotið mjög góða umfjöllun. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd. Þar eiga allir flokkar sinn fulltrúa. Málið hefur verið rætt ítarlega, eins og hv. formaður nefndarinnar hefur komið inn á. Kallað var til aukafundar að beiðni þingmanns á milli 2. og 3. umr. Þar var farið yfir þær spurningar sem lagðar voru fram, farið var yfir beiðnir um gestakomur.

Það var álit meiri hlutans að þessum spurningum hefði verið svarað. Þessir gestir hefðu mætt.

Það er ekkert við störf nefndarinnar eða formanns nefndarinnar að athuga og ég vil nota tækifærið hér og þakka henni fyrir vel unnin störf, sem og nefndinni allri.

Ég veit að þetta er erfitt mál. Það verður útkljáð með þeim hætti sem menn gera hér, með atkvæðagreiðslu í þingsal. Störfum nefndarinnar er lokið með sóma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)