149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

um fundarstjórn.

[15:30]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég áttaði mig á því þegar ég hlustaði á hv. þm. Óla Björn Kárason að við skiljum orðið sátt greinilega á ólíkan hátt. Viknafjöldinn var ræddur ítrekað í velferðarnefnd. Það var tekin fagleg afstaða, málefnaleg afstaða, byggð á þekkingu og yfirlegu. Niðurstaðan var sú að það var ekki hægt að hrófla við 22 vikum án þess að opna fyrir alls konar önnur vandamál. 22 vikur er sú niðurstaða sem kom út úr faglegu starfi nefndarinnar. Við vorum öll sammála um að þetta starf hefði verið faglegt og vel unnið, sem við sýndum með því að greiða öll atkvæði með því að afgreiða málið út þó að við værum síðan ósammála niðurstöðunni. Sum vilja ekki 22 vikur. Það er gott og vel.

Það er ekki sátt að taka mál inn til nefndar án þess að komið hafi fram nýjar upplýsingar og fara að prútta um viknafjöldann. Það er ekki sátt. Það eru ómálefnaleg hrossakaup um grundvallarréttindi og í því þurfum við ekkert að taka þátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)