149. löggjafarþing — 101. fundur,  7. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[16:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvar hennar. Ég var spurð að því hvort 10. gr. núgildandi laga frá 1975 næði ekki til þeirra tilvika sem rakin voru hér varðandi félagslega stöðu kvenna af ýmsum stærðum og gerðum, á ýmsum aldursskeiðum. Hvort hún næði ekki yfir þessi tilvik: Þessa 13 ára gömlu stúlku, erlendu konuna sem verið hefur innilokuð á heimili sínu sökum ofbeldis, eða fíkilinn sem áttaði sig á því að hún var gengin tæpar 20 vikur og hafði ekki hugmynd um hvað hún hefði verið að gera á síðustu 20 vikum eða hvers hún hefði verið að neyta.

Nei, herra forseti. 10. gr. tekur einmitt ekki til slíkra tilvika, einskis þeirra. 10. gr. tekur bara til þess þegar ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður eru fyrir hendi og lífi og heilsu konunnar er stefnt í þeim mun meiri hættu með lengri meðgöngu og fæðingu. Hún tekur einmitt ekki á félagslegum aðstæðum. Hún gerir það einmitt ekki. Þannig að því er fljótsvarað.