150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

félagslegt öryggi ungs fólks.

[15:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra heldur hér ræðu um alla þá hluti sem hún telur ríkisstjórnina vera að gera fyrir ungt fólk og námsmenn en hæstv. ríkisstjórn hefur samt ekki átt skýr svör við því hvað tekur hjá þeim námsmönnum sem ekki fá vinnu í sumar. Við vitum alveg að það verður töluvert um námsmenn sem ekki fá vinnu í sumar, það liggur fyrir. Þar með hefur hæstv. ríkisstjórn ekki orðið við þeirri skýru kröfu stúdentahreyfingarinnar að stúdentar búi við fjárhagslegt öryggi. Vissa stúdenta um sitt fjárhagslega öryggi nær varla fram að næstu mánaðamótum. Hvers konar skilaboð eru það til ungs fólks að það eigi að bíða upp á von og óvon um að fá kannski stuðning stjórnvalda? Hvers vegna er þessi tregi hjá ríkisstjórninni til að taka af allan vafa um að námsmenn muni eiga rétt á atvinnuleysisbótum? Er hæstv. forsætisráðherra kannski bara sammála hæstv. félagsmálaráðherra um að það eigi ekki að láta þessa nemendur fá pening fyrir að gera ekki neitt?