150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

596. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Nefndin fjallaði vel um málið og fékk til sín góða gesti. Tilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/1513 frá 9. september 2015 um breytingu á tilskipun um gæði bensíns og dísileldsneytis og um breytingu á tilskipun um að auka notkun orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013, er kveðið á um að söluaðila eldsneytis á Íslandi beri að tryggja að minnst 3,5% af orkugildi heildarsölu hans af eldsneyti til notkunar í samgöngum á öllu landinu á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Þá skal tryggt að minnst 5% af heildarorkugildi eldsneytis til notkunar í samgöngum á landi á ári sé endurnýjanlegt eldsneyti. Í 2. mgr. er heimild til að telja visst endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis til að uppfylla skilyrði 1. mgr.

Með frumvarpinu er lagt til að fella brott 2. mgr. 3. gr. laganna og að ráðherra verði veitt heimild til að kveða í reglugerð á um hvaða tegundir endurnýjanlegs eldsneytis megi telja tvöfalt á við sama magn annars endurnýjanlegs eldsneytis. Við meðferð málsins kom fram að ásamt því að stuðla að auknum skýrleika væri mikilvægt að bregðast við þeirri tækniþróun sem orðið hefur á undanförnum árum sem leitt hefur til þess að fjölbreyttara úrval endurnýjanlegs eldsneytis er komið á markað sem nýtist í fleiri ökutækjum en áður.

Almennrar ánægju gætti með frumvarpið bæði í umsögnum og í máli gesta fyrir nefndinni og hv. atvinnuveganefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi, nr. 40/2013 (tegundir eldsneytis, gagnaskil).

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur ásamt hv. þingmönnum Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formanni hv. atvinnuveganefndar, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, Ásmundi Friðrikssyni, Höllu Signýju Kristjánsdóttur, Jóni Þór Ólafssyni, Njáli Trausta Friðbertssyni, Ólafi Ísleifssyni og Sigurði Páli Jónssyni.