151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:08]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Sú kona sem hér stendur hefur mælt fyrir rétt tæplega 30 þingmannamálum á Alþingi í vetur. Nánast öll þau mál lúta að því að bæta kjör þeirra sem bágast standa í samfélaginu. Eitt af þeim málum er t.d. — nú kem ég bara með spurningu til ykkar, kæru landsmenn og ágæti forseti: Hvað í veröldinni getur komið í veg fyrir að leyfa fátæku fólki að reyna sig á vinnumarkaði ef það hefur heilsu og getu til? Hvað í veröldinni getur komið í veg fyrir að aldraður einstaklingur sem vill vinna áfram skuli vera skertur slíkt og þvílíkt að ekki er nokkur hagur af því heldur er hann látinn fara heim og sitja þar og bíða eftir sinni hinstu ferð. Komið hefur í ljós, og allir vita það sem vilja, að það er ekkert nema ávinningur af því að gefa fólki kost á því að bjarga sér sjálft í stað þess að með vitund og vilja stjórnvalda sé algjörlega einbeittur vilji til að halda þessu fólki áfram í rammgerðri fátækt. Það er þjóðarskömm að skattleggja fátækt.

Flokkur fólksins hefur t.d. mælt fyrir frumvarpi sem kveður á um 350.000 kr. lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingarlaust. Hvernig er farið með það? Þeir sem hafa í rauninni sjaldan þurft að dýfa hendi í kalt vatn og vita ekki hvað það er að berjast í fátækt virðast engan veginn geta sett sig í spor þeirra samlanda sinna sem eiga virkilega bágt. Þessir sömu háu herrar, æðstu embættismenn þjóðarinnar, furða sig hvað mest á því hvernig stendur á öllum þessum andlegu bágindum. Af hverju líður okkur svona illa? Við skulum ekki gleyma því að þetta ástand, þessi kúgun, bitnar á fátækasta fólkinu í landinu og bitnar fyrst og síðast á börnunum sem eiga að byggja landið.