151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:14]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Öll viljum við búa við öryggi, ekki bara eigið öryggi heldur öryggi okkar nánustu. Eiginlega skiptir ekkert okkur meira máli en það. Allir sem hafa upplifað öryggisleysi á ögurstundu skilja það best. Þrátt fyrir að íslenska þjóðin sé fámenn er landið stórt. Við verðum að hafa dreift, kröftugt öryggisviðbragð um landið allt. Stundum er sagt að ekki sé gæfulegt að hafa öll eggin í sömu körfu. Þess vegna hef ég undanfarið rætt um björgunarmiðstöð á Akureyri og að þar verði þyrla á vegum Landhelgisgæslunnar staðsett. Að hafa allar björgunarþyrlur staðsettar í Reykjavík skerðir viðbragðstíma og þjónustugetu, sérstaklega gagnvart Norður- og Austurlandi og hafsvæðum þar sem veður geta verið válynd. Sjófarendur um norðan- og austanvert landið búa í dag við minna öryggi en aðrir þegar þyrlubjörgunarsveitin er einungis á suðvesturhorni landsins. Lausnin felst í að staðsetja þyrlu eða hluta flugdeildar Landhelgisgæslunnar á Akureyri, nálægt landfræðilegri miðju landsins. Augljós tenging er við sjúkraflug á Akureyri. Þar er fyrir reynsla sem nýtist flugdeildinni og geta læknar mannað hluta þyrluáhafnar. Best færi á því að björgunarklasi væri byggður upp samhliða þeim sterka norðurslóðaklasa sem fyrir er við Eyjafjörð. Til staðar eru innviðir sem nauðsynlegir eru slíkri starfsemi. Björgunarklasann ætti að byggja samhliða miðstöð sjúkraflugsins með flugvélum sem eru á Akureyri og læknar frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands manna sjúkraflugið þegar þörf er á. Slíkur björgunarklasi fellur vel að áformum um þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu við sjúkrahúsið og fer vel saman við þjálfun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem er rekin við Sjúkrahúsið á Akureyri hjá Sjúkraflutningaskólanum. Á flugvellinum starfa einnig flugvirkjar og þar er fyrsta flokks viðhaldsþjónusta fyrir þyrlu.

Hæstv. forseti. Málið er borðleggjandi.