151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[20:48]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála að mörgu leyti. Ég er ekki endilega viss um að það sé t.d. auðvelt að taka upp evru mjög hratt en tengingu væri mögulega hægt að koma á tiltölulega hratt. Vandinn er auðvitað sá að samfélög hreyfast hægt. Þau breytast hægt. En það er svo margt að gerast í heiminum í augnablikinu sem kallar á að við séum aðeins fljótari en oft áður. Þegar maður horfir á þau samfélög sem náð hafa hvað lengst þá eru ákveðnir þættir, ákveðin box sem þau hafa tikkað í í gegnum tíðina sem gerir þeim kleift að hreyfa sig jafnvel örlítið hægar á alla vega einhverjum sviðum þó svo að þau séu hraðari annars staðar.

Ég bið hv. þingmann kannski ekki um að fara í einhvers konar upptalningu á öllum þeim atriðum sem gera þarf vegna þess að ég skil að það er ekki hægt á stuttum tíma. En ég myndi samt vilja sjá einhvers konar hugmynd eða fyrstu drög að því hvernig íslenskt samfélag gæti breyst hratt á þeim sviðum þar sem íhaldssemin stoppar ekki allt saman, vegna þess að það er mikil íhaldssemi í þessu sambandi. Það sést á því að Sjálfstæðisflokkurinn kemst einhverra hluta vegna alltaf aftur til valda þrátt fyrir góða viðleitni margra til að breyta því. Við hljótum að geta gert betur, en ég er orðinn svo vondaufur um að hægt sé að búa til raunsætt plan til að ná umtalsverðum árangri á eðlilegri tímalínu. Ég veit að þetta er óljós spurning eða beiðni, en ég vona að hv. þingmaður geti aðeins leikið sér með þessar hugmyndir.