Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er svolítið eins og samtalið um álverin á Íslandi. Það er talað um að það sé svo flott og fínt að við séum með álver hér vegna þess að annars væru álver í Kína að búa þetta ál til sem væri miklu meira mengandi. En við erum ekki að hugsa um að í raun sé allt of mikið af áli til í heiminum sem þurfi að endurvinna og það kosti miklu minni orku og við þurfum ekki að gera það, hvorki á Íslandi né í Kína, til þess að ávinningur hljótist af fyrir umhverfið.

Það er eins með þessa umræðu. Vissulega er gas og kjarnorka skömminni skárri en kol. Það þýðir samt ekki að Evrópusambandið og við núna þurfum að viðurkenna gasvinnslu og kjarnorkuver sem sjálfbærar fjárfestingar vegna þess að þau eru það ekki. Það er hreinlega blekkjandi að halda því fram. Ég tel hins vegar ekki óæskilegt á meðan ekki er annað í boði þá noti þau ríki sem þess þurfa í Evrópu frekar gas en kol. Maður minn, auðvitað, endilega sleppum kolunum. Það breytir því ekki að mér finnst algjörlega óboðlegt að hér sé verið að halda því fram að það sé sjálfbært að fjárfesta í gas- og kjarnorkuverum vegna þess að það er það ekki. Það er ekki að hjálpa til á neinn hátt annan en þann að bjarga Evrópu út úr snörunni sem hefði átt að vera búin að koma sér upp sjálfbærari orkugjöfum fyrr vegna þess að Evrópuþjóðir hafa ekki rússneskt gas til að reiða sig á akkúrat núna. Það breytir því ekki að við eigum ekki í raun að gefa almenningi og fjárfestum rangar upplýsingar um hvað eru sjálfbærar fjárfestingar og hvað ekki. Það er ástæða fyrir því að öll þessi umhverfissamtök hafa verið að segja sig frá framkvæmdastjórninni sem á að hafa yfirlit með þessu. Það er vegna þess að þau litu svo á að það ætti að vera faglegar forsendur fyrir þessari flokkun og þau líta svo á að það sé engin fagleg forsenda fyrir því að flokka gas- og kjarnorkuver sem sjálfbæra fjárfestingu.