Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og held ég að við getum verið sammála um það að Evrópa hefur bara klúðrað sínum orkumálum á síðustu áratugum. Að reiða sig á rússneskt gas er algerlega galið og það sem við horfum upp á núna með þessum hörmungum í Evrópu er skýr birtingarmynd þess.

En mig langaði líka að spyrja hv. þingmann vegna orða hennar hér áðan varðandi hagsmunagæslu Íslands út af fluginu og að auka skatta á flug. Er hv. þingmaður að segja að hún telji ekki ástæðu til þess að íslensk stjórnvöld berjist fyrir og tryggi það í rauninni að frumvarpið verði innleitt óbreytt frá því sem Evrópuþingið samþykkti fyrir viku síðan eða svo?