Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli: Já, mér finnst þetta vera kolröng barátta. Í lengra máli: Það er nú einu sinni þannig að það kom mér t.d. verulega á óvart að heyra forsætisráðherra byrja strax að tala um einhvers konar vetó, að hafna innleiðingu á þessu máli, eitthvað sem hefur aldrei áður verið gert, út af umhverfissköttum á flugmiða. Í því samhengi finnst mér mjög mikilvægt að halda því hér fram — vegna þess að mér hafa fundist upplýsingar vera mjög á reiki, og mér finnst það skipta máli við hvern þú talar, hvort það er forsætisráðherra eða ríkisstjórn Íslands, sem fram koma af þeirra hálfu eða frá fulltrúum Evrópusambandsins um hvaða raunveruleg fjárhagsleg áhrif þetta mun hafa á flugmiðaverð á Íslandi.

Það virðist muna tífalt þannig að það sem Evrópusambandið heldur fram er að hér séum við að tala um kannski 1.000 kr., kannski 1.500 kr. aukalega fyrir þennan skatt. En hér kemur fram 11.000, 12.000, 13.000 kr. Mér finnst mikilvægt að það sé algjörlega á hreinu hvað þessir umhverfisskattar muni kosta okkur og ég held að hér sé verið að ýkja töluvert hvaða áhrif þetta mikilvæga skref fyrir umhverfið muni hafa. Við þurfum að gangast við þeirri ábyrgð sem við þurfum til að bregðast við loftslagsvandanum og við gerum það ekki með því að reyna að koma okkur hjá öllum þeim aðgerðum sem okkur finnst óþægilegar. Við vitum bara að það þarf að fara í óþægilegar aðgerðir til að bregðast við loftslagsvánni og það er til að búa til heilnæmt umhverfi fyrir framtíðarkynslóðir. Þannig að ég er a.m.k. alveg til í að borga aukalega 1.500 kr. fyrir flugmiðann minn til að hjálpa til við að gera það að veruleika.