Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[15:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Við ræðum hér gjörsamlega galið frumvarp sem mun hafa gríðarlega mikil, neikvæð áhrif fyrir samfélagið á hinn fjölbreytilegasta hátt. Það er í andstöðu við hugmyndir um frjálst markaðshagkerfi, það felur í sér eftirgjöf á valdi frá Alþingi og samfélaginu öllu, það felur í sér stækkun báknsins, gríðarlega auknar kerfisflækjur, refsigleði, mikinn aukinn kostnað fyrir atvinnulífið hér og á endanum auðvitað fyrir almenning líka og stuðlar að óhagkvæmum fjárfestingum, minni verðmætasköpun í landinu og flutningi iðnaðar í enn meiri mæli frá Evrópu til Kína til að mynda.

Ég heyrði fyrst af þessum hugmyndum Evrópusambandsins fyrir alllöngu síðan og óttaðist að þetta kynni að reka á fjörur okkar, enda hefur ríkisstjórnin einsett sér að elta Evrópusambandið í allri sinni nálgun á umhverfismálin þrátt fyrir að við sjáum aftur og aftur að lausnir Evrópusambandsins eiga oft og tíðum alls ekki við hér á landi og geta verið skaðlegar, m.a. með tilliti til umhverfissjónarmiða, og raunar kannski ekki í Evrópusambandinu sjálfu heldur, eins og sjá má af því hvað dregur úr nýrri fjárfestingu í iðnaði og framleiðslu í Evrópu og sú framleiðsla flyst þá annað eins og ég nefndi.

Áformin eru annars vegar þau að skylda aðila til að fara í mikla greiningu á því hver hugsanleg loftslagsáhrif séu af fjárfestingum, af lánveitingum í fjárfestingar, ný verkefni o.s.frv. Þetta geta verið óendanlega flóknir útreikningar, enda spurning alltaf hvar á að stoppa í keðjunni því að öll mannanna verk losa gróðurhúsalofttegundir. Við getum ýmist reynt að draga úr því eða auka á það og stundum eru aðgerðir sem losa gróðurhúsalofttegundir til þess fallnar að spara í heildarsamhenginu en hér líta menn jafnan ekki á heildarmyndina. Þá ætlar Evrópusambandið líka að skilgreina fyrir okkur hvernig eigi að flokka verkefni og hversu æskileg eða óæskileg þau teljist út frá flokkun Evrópusambandsins.

Og ætlum við að treysta Evrópusambandinu til að flokka verkefni fyrir okkur og meta hvað telst æskilegt og hvað ekki? Hvernig ætli til að mynda álverin hefðu farið út úr nýjustu hugmyndum Evrópusambandsins um flokkun hvað þetta varðar? Ætli þetta hefði auðveldað þá fjárfestingu, uppbyggingu, eða dregið úr möguleikum? Eða hvaða annar iðnaður sem er til staðar á Íslandi og jafnvel fleira en iðnaður; landbúnaður, hvernig er viðhorf Evrópusambandsins í sínum flokkunum á gildi fjárfestingar til landbúnaðar? Við sjáum það nú aldeilis í Hollandi núna þar sem Evrópusambandið, eða hollensk stjórnvöld með vísan í Evrópusambandið, eru með áform sem munu hreinlega rústa stöðu hollensks landbúnaðar. Ætlum við bara að láta þetta allt flæða yfir okkur og að því marki að það eigi að skylda fyrirtæki, fjárfestingarfélög, lífeyrissjóði, banka o.s.frv. til að meta allar ákvarðanir og allar fjárfestingar út frá því hvort þær séu Evrópusambandinu þóknanlegar og kenningum þess?

Við vitum ekki einu sinni hverjar þessar kenningar verða í framtíðinni því að það kemur fram í frumvarpinu að þetta muni nú þróast. Það verði einhverjir sérfræðingar, eftir atvikum aktífistar, með skoðanir sem við höfum nú fengið að heyra að geta oft verið nokkuð þversagnakenndar og öfgafullar, sem munu áfram þróa þetta og senda okkur leiðbeiningar um hverju við eigum að fylgja þann daginn. Það eru að vísu komnar tvær undirgerðir nú þegar sem á að innleiða samhliða þessu frumvarpi — nýta ferðina, frú forseti, og innleiða þessar tvær undirgerðir bara núna í leiðinni. Það er reyndar ekki búið að þýða þær en það stendur yfir vinna við þýðingu á þessum undirgerðum. Svo kemur fram að þeim muni í framhaldinu fjölga og við fáum þetta bara sent til þýðingar og innleiðingar eða, eins og í þessu tilviki, til innleiðingar og svo þýðingar.

Þetta mun hafa áhrif á öllum sviðum samfélagsins. Þegar ráðist er í aðgerðir sem eru þetta íþyngjandi fyrir atvinnulífið og fela í sér þetta mikið aukinn kostnað hefur það áhrif á samfélagið allt. Hvar er t.d. hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins sem leggur fram svona frumvarp? Hvenær gafst Sjálfstæðisflokkurinn endanlega upp á frjálsu markaðshagkerfi og fór að telja að betra væri að einhverjir embættismenn mótuðu einhverja skilmála um hvað væru æskilegar fjárfestingar og hvað ekki og þvinguðu svo menn til þess að fylgja þeim skilmálum? Ég veit ekki hvenær Sjálfstæðisflokkurinn gafst endanlega upp á kapítalismanum eða frjálsu markaðshagkerfi en það er alla vega staðfest að það hafi gerst með þessu ótrúlega frumvarpi. Og hvenær gafst Framsóknarflokkurinn upp á atvinnuuppbyggingu, atvinnusköpun? Eins og ég nefndi þá getur þetta haft gríðarleg áhrif á það hversu vænlegar fjárfestingar í atvinnusköpun, ekki hvað síst á landsbyggðinni, munu teljast. Það á við um iðnaðinn augljóslega og það getur átt við um ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta hefur augljóslega áhrif á umhverfið. Það vitum við og höfum fengið að heyra frá þessum flokkunarsérfræðingum Evrópusambandsins. Þeir hjóla sérstaklega í flugið auðvitað eins og við þekkjum. Talandi um það, frú forseti: Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að ætla að afgreiða þetta áður en hún er búin að fá niðurstöðu varðandi flugbannið eða flugskattana? Þetta er algjörlega óskiljanleg undirgefni sem er farin að einkenna þessa ríkisstjórn gagnvart Evrópusambandinu.

Aftur að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Ég nefndi landbúnaðarmál. Það er nógu dýrt að fjárfesta í landbúnaði og uppfylla allar þær kröfur sem koma oft frá Evrópu og Evrópusambandinu og er fylgt hér af meiri ákafa en víðast hvar annars staðar þótt það sé ekki beinlínis farið að innleiða hér kerfi sem á að beina mönnum frá fjárfestingu í landbúnaði og matvælaframleiðslu, enda er það litið hornauga af þessum kennismiðum Evrópusambandsins. Það er ekkert búið að velta því fyrir sér af hálfu þeirra sem keyra þetta mál áfram í þinginu hvaða áhrif þetta hafi á iðnaðaruppbyggingu á Íslandi, atvinnuuppbyggingu almennt, ferðaþjónustu, landbúnað, sjávarútveg — ekkert. Menn bara elta einhverjar aðsendar kennisetningar Evrópusambandsins. Og er nú ekki fjármögnunarkostnaðurinn nægur fyrir þó að við fáum ekki frá ríkisstjórninni frumvarp um að auka enn á kostnað og tregðuna við að hægt sé að ráðast í fjárfestingar á Íslandi og uppbyggingu, gera það eins flókið og kostur er og færa valdið yfir stefnu í atvinnumálum og verðmætasköpun á Íslandi úr landi til einhverra embættismanna og jafnvel nefnda? Hér eru nefndar einhverjar nefndir sem eiga að leiðbeina okkur um það hvernig við eigum að lifa hér.

Lífeyrissjóðirnir eru auðvitað þarna undir og þá má vænta þess að samþykkt verði einhver krafa á þá um að fjárfesta bara í því sem fær ESB-stimpilinn, bara í slíkum verkefnum. Fyrir vikið munu margir verða af fjármögnun fyrir verkefni sem hefðu getað orðið mikilvæg hér á Íslandi, byggðarlega, atvinnulega og með tilliti til verðmætasköpunar. Auðvitað, eins og alltaf þegar farið er fram af hörku, með auknu kerfisræði, stækkandi bákni og íþyngjandi regluverki, þá fylgja refsingar þeim sem dirfast að fylgja þessu ekki í ystu æsar. Oft getur reyndar verið mjög erfitt að átta sig á því hverju á að fylgja því að leiðbeiningar hafa í fyrri innleiðingum oft og tíðum verið ófullnægjandi og fyrirtæki þá lent í vandræðum með að framfylgja þeim þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð.

Hér er sérstaklega mælt fyrir um eitt og annað sem getur verið refsivert: Í 5. gr., um gagnsæi umhverfislega sjálfbærra fjárfestinga í upplýsingum sem birtar eru áður en samningur er gerður og í reglubundnum skýrslum. Það er sem sagt gert refsivert að greiningin fari ekki fram nógu snemma. Annað sem varðar refsingar er brot gegn 6. gr., um gagnsæi fjármálaafurða er lýtur að umhverfisþáttum í upplýsingum sem birtar eru áður en samningur er gerður og í reglubundnum skýrslum. Þetta er varðandi birtingartímann sem ég nefndi einnig varðandi 5. gr. Og 7. gr., um gagnsæi annarra fjármálaafurða í upplýsingum sem birtar eru áður en samningur er gerður og í reglubundnum skýrslum. Þetta eru sem sé fimm greinar þarna. Svo er farið nánar út í fjölmarga þætti sem geta talist refsiverðir. Ég hef ekki tíma til að lesa þá alla upp, frú forseti, en ég get sagt aðeins frá sektunum sem menn geta átt í vændum ef þeir ná ekki að fylgja alveg þessu nýja kerfisræði sem hér er verið að innleiða. Með leyfi forseta, segir í frumvarpinu, undir umfjöllun um 5. gr.:

„Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 110 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 800 millj. kr. en geta þó verið hærri eða allt að 3% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 3% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.“

— Sem sagt 3% af veltu samstæðunnar, svo háar getað sektirnar verið fyrir að fara ekki eftir þessu nýja illskiljanlega og íþyngjandi regluverki. Allt miðar þetta að því að stýra því hvar er fjárfest og í hverju. Þetta er ekki bara neyslustjórnun, þetta er líka fjárfestingarstjórnun sem Sjálfstæðisflokkurinn er hér að leiða yfir landið og þetta er gríðarlegt aukið regluverk, aukinn kostnaður fyrir fyrirtæki og einstaklinga og stærra bákn. Það er með öðrum orðum haldið áfram á sömu leið og þessir stjórnarflokkar hafa verið frá því að ríkisstjórnin tók við völdum en með alveg einstaklega óbilgjörnu og stóru skrefi í þessu tilviki. Afleiðingarnar munu svo bara birtast jafnt og þétt og verða meiri og meiri.

Eins og ég gat um áðan þá er hér bara verið að opna fyrir krana þar sem pótintátarnir og sérfræðingar þeirra eða starfandi aktífistar fá vald til að hlutast til um það í hverju megi fjárfesta á Íslandi, hvað sé æskileg fjárfesting og hvað óæskileg. Þetta með öðrum orðum gengur gegn fullveldi landsins og möguleikum okkar á að stjórna því lýðræðislega eins og við teljum best. Þetta vegur að íslensku atvinnulífi, fjárfestingu hér og uppbyggingu og ekki hvað síst á landsbyggðinni eins og ég rakti áðan.

Ég hef augljóslega ekki tíma til að rekja nokkur þeirra atriða. Þau eru mjög mörg sem á að taka mið af í þessu flokkunarkerfi. Það vakti þó athygli mína að á einum stað er sérstaklega nefnt að það lúti að, með leyfi forseta:

„Með áhættu tengdri sjálfbærni er átt við atvik eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gæti haft veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestinga.“

Það á ekki bara að stýra hér í samfélaginu út frá meintum áhrifum á loftslagið, einnig meintum áhrifum fjárfestinga á félagslega þætti. Til hvers er þing að störfum við að reyna að leysa úr því hvernig við högum málum best fyrir samfélagið ef við getum bara fengið þetta allt sent?