Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[16:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Er þetta einhver ný taktík í stjórnarliðinu? Ég er nefnilega nýbúinn að lenda í því að hæstv. ráðherrar Framsóknarflokks og Vinstri grænna hafa sagt eitthvað fráleitt hér og ég bent á það. Svo koma þeir og segja: „Nei, þú varst að segja þetta.“ Ég var ekki að tala um dauða, það var hv. þingmaður. Ég er hins vegar mjög bjartsýnn á framtíðina og á það að við getum leyst loftslagsvandann. En hvað um það.

Hv. þingmaður segir að atvinnurekendur hafi sýnt ábyrgð og vilji gera það í umhverfis- og loftslagsmálum. Það er alveg rétt. En af hverju er þeim þá ekki treystandi til þess? Af hverju þarf Evrópusambandið að mæla fyrir um það hvernig er fjárfest?

Þetta er einfaldlega vantraust gagnvart frjálsum fyrirtækjum og stjórnendum þeirra og gagnvart því að þeir geti sjálfir metið hvað er æskileg fjárfesting og hvað ekki. Með þessu er verið að gefa frá okkur Íslendingum, þinginu, samfélaginu, skilgreiningarvaldið um það hvað er grænt. Hv. þingmaður segir: Álverin hafa gert mikið til að verða grænn iðnaður. Ég er sammála því. Ég er líka á því að íslenskur landbúnaður sé stórkostlega græn og mikilvæg grein. En Evrópusambandið er ekki sammála því. Hann fellur ekki að þessum skilgreiningum sem reynt er að innleiða hér.

Það er það sem ég er að setja út á, hversu fráleitt það er að við skulum gefa frá okkur valdið til að skilgreina hvernig við getum sem best komið til móts við náttúruna en um leið byggt upp atvinnulíf á Íslandi. (Gripið fram í.)