Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

415. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað til að leiðrétta þessa rangfærslu, mistúlkun, afskræmingu á sannleikanum eða hvað við eigum að kalla þetta sem fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um að Píratar og Miðflokkurinn væru sammála í þessu máli og fyndu þessu frumvarpi allt til foráttu.

Af þessu mátti ráða að við værum sömu loftslagsafneitunarsinnar og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem við erum að sjálfsögðu ekki eins og sést skýrt af þeim athugasemdum sem við gerðum við þetta frumvarp. Við hefðum átt að beita okkur fyrir því að gera fyrirvara um að kjarnorka og gas yrði skilgreint sem sjálfbærar fjárfestingar.

Ég vil líka ítreka það sem fram kom í máli mínu að ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Það að ég sé ekki tilbúin til að styðja þetta frumvarp heils hugar hefur ekkert með það að gera að það komi frá Evrópusambandinu.

Mér finnst rétt að aðgreina athugasemdir mínar og okkar í Pírötum frá athugasemdum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem nálgast þetta út frá allt öðrum forsendum en sú sem hér stendur. Mér finnst ekki réttmætt eða sanngjarnt að leggja okkar skoðanir í þessu máli að jöfnu eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir gerði í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson rétt áðan.