Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

tónlist.

542. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til tónlistarlaga. Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um tónlist með það að markmiði að efla umgjörð fyrir sköpun og flutning tónlistar, m.a. með því að sameina gildandi löggjöf um tónlist í ein heildarlög. Með frumvarpinu er m.a. leitast við að löggjöf um tónlist verði sambærileg löggjöf á sviði bókmennta, myndlistar og sviðslista. Breytingar hafa orðið á starfsumhverfi tónlistargeirans sem kalla á endurskoðun laganna, starfsumhverfi stofnana hefur breyst og ábyrgð stjórnenda er orðin skýrari. Þá er brýnt að ein heildarlög nái yfir allar stefnur tónlistar. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sameina þrjá sjóði, tónlistarsjóð, hljóðritasjóð og útflutningssjóð íslenskrar tónlistar, undir merkjum nýs tónlistarsjóðs og einfalda þar með sjóðakerfi tónlistar og gera það skilvirkara. Markmið frumvarpsins er einnig að skilgreina hlutverk tónlistarsjóðs og opinberra stofnana sem tilheyra greininni, skilgreina aðkomu ríkisins að starfsumhverfi tónlistar og aðkomu þess að fyrirhugaðri tónlistarmiðstöð og lögbundnu verkefni hennar og mæla fyrir um hlutverk og starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Nefndin fjallaði um málið, fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi.

Nefndin fagnar framkomnu frumvarpi sem mælir fyrir um heildarlög um tónlist og tekur undir markmið þess og framsetningu.

Nefndin fjallaði sérstaklega um tónlistarmiðstöð og tónlistarráð. Í umsagnarferli komu fram athugasemdir m.a. varðandi skipan í stjórn tónlistarmiðstöðvar. Nefndin hefur skilning á því að hagaðilar vilji hafa aðkomu að því hvernig skipa eigi stjórn tónlistarmiðstöðvar en tekur undir það sem fram kemur í minnisblaði menningar- og viðskiptaráðuneytisins til nefndarinnar, dags. 24. mars 2023, um samsetningu stjórnar samkvæmt frumvarpinu, þ.e. að í stjórn séu fulltrúar frá öllum helstu hliðum tónlistarsenunnar, þ.e. framleiðenda, flytjenda, tónhöfunda og tónlistarkennara. Nefndin telur ómögulegt að skipa alla hagaðila sem þess óska í stjórn en telur að með stofnun tónlistarráðs náist sem mest breidd og flest sjónarmið inn í tónlistarmiðstöð. Samkvæmt frumvarpinu skal tónlistarráð vera stjórnvöldum og tónlistarmiðstöð til ráðgjafar um málefni er varða tónlist og tónlistarráð tekur þátt í stefnumótun tónlistarmiðstöðvar. Nefndin tekur jafnframt undir þær breytingar sem gerðar voru á 4. gr. frumvarpsins með vísan til umsagnar frá Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum í samráðsgátt stjórnvalda. Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu var ákveðið að útvíkka stjórn tónlistarmiðstöðvar og mun Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum tilnefna einn í stjórn.

Fyrir nefndinni var einnig fjallað um hverjir skyldu eiga aðkomu að tónlistarráði. Nefndin bendir á að samkvæmt 6. gr. frumvarpsins skipar ráðherra fulltrúa samkvæmt tilnefningum hagaðila sem tilgreindir eru á lista sem ráðuneytið heldur utan um og uppfærir eftir þörfum. Í greinargerð kemur fram að tónlistarráði er ætlað að vera samráðsvettvangur á milli stjórnvalda, tónlistarmiðstöðvar og tónlistargeirans til að fá megi sem flest og fjölbreyttust sjónarmið fyrir vinnu við stefnumótun á sviði tónlistar. Ekki er því mælt fyrir um það í frumvarpinu hverjir teljist vera hagaðilar.

Þá var fyrir nefndinni fjallað um það hvort þörf væri á að skýra nánar hlutverk tónlistarmiðstöðvar, m.a. hvað varðar ráðgjöf við innlent tónlistarlíf. Nefndin bendir á að nánar er fjallað um það í greinargerð með frumvarpinu og m.a. vísað til þess að miðstöðin muni sinna fræðslu og vera samstarfsvettvangur um stefnu og aðgerðir í málefnum tónlistar. Þá vísar nefndin jafnframt til þess sem kemur fram í minnisblaði ráðuneytisins um að það komi í hlut stjórnar og framkvæmdastjóra tónlistarmiðstöðvar að sinna upplýsingagjöf og kynningarstarfi enda mikilvægt að hlutverkið sé skýrt gagnvart almenningi og ekki síst tónlistarfólki.

Nefndin fjallaði að auki um hlutverk Sinfóníuhljómsveitar Íslands og það sem fram kemur í frumvarpinu um að leggja beri áherslu á kynningu og útbreiðslu á íslenskri tónlist hér á landi og erlendis. Nefndin telur mikilvægt að Sinfóníuhljómsveitin frumflytji á hverju ári a.m.k. eitt íslenskt tónlistarverk líkt og er m.a. mælt fyrir um í lögum um sviðslistir þar sem segir að tryggja skuli að Þjóðleikhúsið frumflytji eitt íslenskt leikverk á hverju leikári. Ekki er lögð til breyting á frumvarpinu en nefndin beinir því til ráðuneytisins að skoða nánari útfærslu þess efnis.

Þá fjallaði nefndin um athugasemd í umsögn Reykjavíkurborgar þar sem lagt er til að mælt verði fyrir um samráð stjórnar Sinfóníuhljómsveitar Íslands við borgina vegna fjárhagsáætlunar hljómsveitarinnar en Reykjavíkurborg stendur að 18% af rekstrarkostnaði hljómsveitarinnar. Samkvæmt gildandi lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands, nr. 36/1982, er mælt fyrir um að leggja skuli starfs- og fjárhagsáætlun fyrir fjárveitingaraðila með nægum fyrirvara til þess að gögn liggi fyrir þegar fjárlög eru undirbúin og afgreidd og fjárhagsáætlanir viðkomandi sveitarfélaga. Í sambærilegu ákvæði í 9. gr. frumvarpsins er nú mælt fyrir um að leggja skuli starfs- og fjárhagsáætlun fyrir ráðherra með nægum fyrirvara til þess að gögn liggi fyrir þegar fjárlög eru undirbúin. Í minnisblaði til nefndarinnar tekur menningar- og viðskiptaráðuneytið undir að eðlilegt sé að samráð verði haft við borgina um gerð fjárhagsáætlunar en slíkt samráð geti farið fram þó að það byggist ekki á lagaskyldu. Nefndin tekur undir að mikilvægt sé að samráð verði haft við Reykjavíkurborg vegna fjárhagsáætlunar Sinfóníuhljómsveitarinnar. Nefndin telur hins vegar ekki þörf á að mæla fyrir um slíkt samráð í lögum en undirstrikar að samkvæmt frumvarpinu er Sinfóníuhljómsveit Íslands sjálfstæð stofnun með sérstakan fjárhag sem lýtur sérstakri stjórn og Reykjavíkurborg tilnefnir fulltrúa í stjórnina.

Nefndin leggur til breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar endurskoðun ársreikninga Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í umsögn sinni bendir ríkisendurskoðandi á að ákvæði lokamálsliðar 9. mgr. 9. gr. frumvarpsins um að Sinfóníuhljómsveit Íslands skuli senda efnahags- og rekstrarreikning til Ríkisendurskoðunar til endurskoðunar sé óþarfi enda falli endurskoðun á ársreikningum hennar undir starfssvið ríkisendurskoðanda samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016. Nefndin tekur undir þessa ábendingu ríkisendurskoðanda og leggur til að lokamálsliður 9. mgr. 9. gr. frumvarpsins falli brott.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar reglugerðarheimild 12. gr. þar sem mælt er fyrir um almenna heimild fyrir ráðherra til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð. Ekki er að finna nánari skýringar við ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu en þó er í 7. gr. mælt fyrir um að ráðherra setji nánari reglur um meðferð umsókna, afgreiðslu og úthlutun styrkveitinga úr tónlistarsjóði. Nefndin telur til bóta að skilgreina nánar hvað falli undir reglugerðarheimild 12. gr. frumvarpsins. Með samþykkt frumvarpsins verða til ný heildarlög um tónlist en með þeim falla m.a. úr gildi lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands en á grundvelli þeirra laga er þegar í gildi reglugerð um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá sé það jafnframt til samræmis við önnur heildarlög um listgreinar, líkt og kvikmyndalög, að tilgreina hvað skuli útfæra nánar í reglugerð. Er því lögð til breyting á 12. gr. frumvarpsins þess efnis að skilgreina nánar hvað verði heimilt að mæla fyrir um í reglugerð ráðherra er varðar framkvæmd laganna.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar gildistöku laganna. Frumvarp til tónlistarlaga var lagt fram 2. desember 2022 og málið gekk til allsherjar- og menntamálanefndar 9. febrúar 2023. Með vísan til þess tíma sem er liðinn frá framlagningu málsins leggur nefndin til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Í 13. gr. er mælt fyrir um að lögin taki gildi 1. janúar 2023 og verði þess í stað mælt fyrir um að lögin öðlist þegar gildi. Auk þess leggur nefndin til breytingar vegna gildistöku III. kafla laganna um tónlistarsjóð til að tryggja samfellu í starfi tónlistartengdra sjóða, sem og ákvæða til bráðabirgða sem mæla m.a. fyrir um tímafrest vegna þjónustusamnings samkvæmt 5. gr. varðandi fjárhag tónlistarmiðstöðvar.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Halldór Auðar Svansson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Bergþór Ólason, Jódís Skúladóttir og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur álitinu.