Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:16]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru blessuðu loftslagsmálin sem mig langaði að forvitnast um og hvernig hv. þingmaður sér þau í þessu máli öllu, hvort hún sjái einhver tækifæri í niðurbroti á múrum í þessum málaflokkum. Mér finnst það svolítil bjartsýni með loftslagsmarkmiðin að það eigi að draga úr losun um 35% fyrir árið 2030. Það er mín tilfinning, eftir að hafa rætt í morgun í atvinnuveganefnd um hvernig gengi í ráðuneytunum, að það virðist ekkert raunverulegt vera í gangi. Það er mikið talað og flott og fögur markmið eru sett, en maður áttar sig ekki á því að einhver meining sé á bak við það. Því finnst mér vera bjartsýni að halda að með þessari áætlun muni eitthvað hreyfast. Ég held að það sé í raun ekki ætlunin að ná þessu markmiði, málið er bara að hjala eitthvað um þetta. Það væri fróðlegt að heyra afstöðu hv. þingmanns hvað það varðar og jafnvel í fleirum.