Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

stefnur og aðgerðaáætlanir á sviði húsnæðis- og skipulagsmála o.fl.

735. mál
[17:21]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að markmið sem stjórnvöld hafa sett í loftslagsmálum á Íslandi séu síst of háleit en vonbrigðin eru þau að við höfum ekki náð þeim, ekki með nokkrum hætti, og losun gróðurhúsalofttegunda eykst frá ári til árs og ekkert virðist ætla að breyta því, alla vega til skamms tíma litið. Við höfum hins vegar, sem er auðvitað umræða sem hefur verið tekin í samfélaginu síðustu áratugina, allar forsendur til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en halda samt áfram sjálfbærum vexti í efnahagslífinu. Við erum betur sett með þennan samdrátt en flest önnur lönd í heiminum, svo ég tali ekki um fátækari lönd. Þetta snýst auðvitað um að skilja að losun og vöxt og að vöxturinn í samfélaginu og efnahagslífinu sé sjálfbær, eins og það heitir. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum og okkur ber skylda til þess að leggja okkar að mörkum. Við erum ekki mörg í samanburði við stærri lönd og stærstu þjóðir en í loftslagssáttmálanum er rætt um sameiginlega ábyrgð allra ríkja. Hana þurfum við að axla og höfum svo sem axlað hana að einhverju leyti, en líka er talað um að verkefnin séu ólík og við höfum misjafnar forsendur til að uppfylla skyldurnar. Ég tel að Ísland hafi allar forsendur til að uppfylla skyldur sínar þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.