Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:23]
Horfa

ráðherra norrænna samstarfsmála (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mig langar kannski að byrja á því að segja, af því að hv. þingmaður nefnir hér að taka upp Helsingfors-sáttmálann, að eitt af því sem Ísland hefur alltaf haldið fram þegar sú umræða kemur upp er að þá þurfum við líka að taka umræðuna um sjálfsstjórnarsvæðin. Við höfum verið frekar höll undir það að auka þeirra þátttöku, sem sagt formlega þátttöku, ekki bara sem áheyrnarfulltrúar með tillögu- og málfrelsi heldur sem fullgildir meðlimir. Sú umræða mun klárlega koma upp og þar vitum við að sitt sýnist hverjum í norræna samstarfinu. Ég myndi sjálfur styðja það að sá hlutur sem snýr að norrænu sjálfsstjórnarsvæðunum yrði aukinn.

En aðeins til að koma inn á það sem hv. þingmaður skildi við hér áðan varðandi öryggis- og varnarmálin þá er ég mjög ánægður með að við fórum í þessa friðaráherslu í formennskuáætlun okkar núna 2023 og auðvitað er á norrænum vettvangi líka fjallað um öryggishliðina og varnarsamstarfi. Ég vil bara taka undir með hv. þingmanni að þá umræðu þarf að taka á víðtækum grundvelli, ekki bara því sem snýr að hernaði eða hernaðarvörnum en heldur líka því, í takti við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, að öryggismál eru svo miklu meira en bara hernaðarlegs eðlis. Ísland hefur auðvitað tekið þátt í borgaralegum hluta norræna varnarsamstarfsins, þ.e. NORDEFCO og þar hefur verið ákveðin endurskoðun í gangi sem verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr, líka í tengslum við fyrirhugaða inngöngu Svíþjóðar og Finnlands í NATO. (Forseti hringir.) Með þeirri breytingu er ekki ólíklegt að umræða á norrænum vettvangi muni kannski taka meira til málefna sem þar eru til umræðu.