Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 101. fundur,  2. maí 2023.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2022.

984. mál
[18:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ítreka þakkir til hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu. Ég hef oft sagt að við mættum gjarnan ræða alþjóðamál meira og oftar hér í þessum sal. Ég hef bara eina athugasemd við þessa skýrslu og það er hvað letrið lítið. Maður þarf að nota gleraugu, sem ég nota sjaldnast, til að komast yfir þetta. En mig langar að segja það, virðulegur forseti, að nú er ég formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og hef verið að reyna að setja mig vel inn í störf Norðurlandaráðs. Ég sat áður í Vestnorræna ráðinu og hafði þá einhverja innsýn í Norðurlandaráð, en í hvert skipti sem ég les skýrslu frá samstarfsráðherra, nú eða dett inn á fréttir á vefsíðu Norðurlandaráðs af norrænu ráðherranefndinni eða sé frá þeim skýrslu þá læri ég eitthvað nýtt. Ég er alltaf að komast að því hvað það er ofboðslega mikið af góðri og mikilvægri vinnu í gangi á vettvangi Norðurlandanna. Og bara svo það sé sagt hér þá hef ég líka margítrekað það að ég held að það séu mörg tækifæri í því fólgin að koma þessum upplýsingum betur áleiðis, bæði til okkar þingmanna en ekki síður til fjölmiðla og þeirra sem starfa í þessum málaflokkum sem hér eru undir, því að þeir eru æðimargir.

Mig langar aðeins að koma aftur inn í þetta varðandi Helsinki-sáttmálann, sem er, hvað á að segja, okkar stjórnarskrá um norrænt samstarf. Það er alveg rétt að það gefur mikið rými og maður sér á þessari skýrslu að það er auðvitað þannig að það er verið að vinna saman á mjög mörgum sviðum og það er bara gott. Ég er algerlega sammála hæstv. ráðherra í því að það eru meiri tækifæri í því og við vitum það og við höfum heyrt það til að mynda þegar hæstv. utanríkisráðherra er hér að vísa í öll þau samtöl sem hún hefur átt og þær aðgerðir sem við höfum farið í varðandi stuðninginn við Úkraínu að norrænu ríkin halda mikið saman. Norrænu utanríkisráðherrarnir halda mikið saman og eins sendifulltrúar okkar víða um heim gagnvart alþjóðastofnunum. Það er gott og ef eitthvað er þá þyrfti að auka það. En ég er sem sagt á þeirri skoðun að ég held að það væri ástæða til að taka sáttmálinn okkur upp og skrifa inn sérstaklega öryggis- og varnarmál. Ég held að sú staða sem uppi er í Evrópu sé þess eðlis að það kalli á það og sú breytta mynd að nú eru öll Norðurlöndin komin í NATO, að þá sé líka tækifæri til að ræða málefni sem snúa sérstaklega á Norðurlöndunum á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Ég er sérstaklega að horfa á norðurslóðir, hef mikinn áhuga á því svæði. Þetta er svo ofboðslega mikilvægt svæði. Þetta er svæði þar sem umbreytingarnar eru svo gígantískar, þar sem meðalhitinn hækkar þrisvar til fjórum sinnum meira en annars staðar í heiminum. Ísinn hefur aldrei bráðnað jafn hratt og allt er að breytast. Þá kemur að þessu mikilvægi vísindasamstarfs okkar, samstarfs um loftslagsmál, um fjarskipti, samgöngur og öryggis- og varnarmál af ýmsum toga. Ég held að það sé mikilvægt að norrænir þingmenn eigi þetta samtal og þetta sé, hvað á ég segja, rammað inn í ákveðnari mynd. En þá kemur að þessu með sjálfsstjórnarsvæðin. Ég er sammála hæstv. ráðherra í því að við Íslendingar höfum yfirleitt og iðulega talað fyrir því að æski þau þess að vera fullgildir aðilar ættu þau að fá að vera það, enda þekkjum við það vel að vera lítið eyríki og berjast fyrir sjálfstæði og mér heyrist nú á flestum félögum mínum í Íslandsdeild Norðurlandaráðs að við séum mjög samstiga í þessum málum.

En svo ég tæpi aðeins á öðrum málum sem eru í þessari skýrslu, því að það er rosalega margt áhugavert og maður er alltaf einhvern veginn að læra eitthvað nýtt og margar skýrslur núna sem maður þarf að lesa í viðbót eftir að hafa lesið þessa skýrslu, þá langaði mig að koma sérstaklega inn á heilbrigðismálin. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir ræddi hér aðeins samstarf okkar varðandi lyfjainnkaupin og hefur ítrekað verið bent á það í stjórnsýsluhindranahópnum okkar og ég sé að ég get lesið um það í skýrslunni. Ég er nýbúin að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra aðeins út í það að leggja áherslu á að taka upp rafræna fylgiseðla, hvað það myndi skipta okkur miklu máli í lyfjainnkaupum, því að jafnvel þó að við tökum þátt í þessum útboðum þá þýðir það samt að þessi risastóru lyfjafyrirtæki þurfa að prenta fylgiseðla með íslenskum leiðbeiningum. Það er ekki nóg að nota einföld gleraugu til að lesa þessa fylgiseðla, það þarf risastækkunargler ef maður á að lesa sig í gegnum fylgiseðla með lyfjum. Ég hygg að það sé vel hægt að gera það með rafrænum hætti og nálgast það öðruvísi. Mér finnst þetta bara svo borðleggjandi að við þurfum að láta þetta gerast. Það er þá ákvörðun okkar að taka upp þessa rafrænu fylgiseðla, en það er þá nauðsynlegt að Evrópuregluverkið í kringum það heimili það líka á hinum Norðurlöndunum og innan Evrópusambandsins. Þannig held ég að við getum sparað umtalsverða fjármuni í sameiginlegum lyfjainnkaupum.

Ég hnaut um eitt varðandi norrænt samstarf um áfengis- og vímuvarnir, það er nú mál sem brennur mjög á okkur hér eftir að hafa orðið vitni að miklum faraldri og mörgum dauðsföllum í tengslum við ofnotkun vímuefna, og ég verð viðurkenna að þetta var t.d. eitthvað sem ég vissi ekki, að árið 2021 var lögð fram tillaga um að stofna norrænan hóp sérfræðinga til að skoða bestu leiðir til að koma í veg fyrir dauðsföll vegna ofskömmtunar. Svo er talað um að þessi hópur hafi fundað óformlega tvisvar sinnum á árinu og að finna þurfi varanlegan farveg fyrir áframhald þessarar vinnu. Mig langaði bara að hvetja hæstv. samstarfsráðherra, og þá í þessu tilfelli líka heilbrigðisráðherra, til að vinna að því, því að ég held að þarna sé verkefni sem ekki bara við á Íslandi erum að glíma við heldur Norðurlöndin öll og þótt víðar væri leitað. En ef við getum skipst á þekkingu og reynslu og úrræðum í þessum efnum þá held ég að þar væri til ofboðslega mikils unnið.

Þá langar mig líka í tengslum við þetta að nefna, sem ég tók eftir því að ég fór að renna yfir Helsinki-sáttmálann, grein um samstarf um heilbrigðisstarfsemi þar sem er tekið á áfengis- og vímuefnameðferðum. Nú veit ég til þess að það hefur verið eitthvað um að Grænlendingar hafi sótt áfengis- og vímuefnameðferð til Íslands og oft hefur verið talað um að við höfum verið framarlega á því sviði, svona alla vega á árum áður, ég veit ekki hver staðan er akkúrat núna. En svo er það líka þekkt að það eru mörg ungmenni sem sækja slíka meðferð til Svíþjóðar. Þar er stofnun sem hefur, vegna þess að hún er með íslenskar tengingar, kannski sérstaklega markaðssett sig gagnvart Íslendingum. Þá er kannski ástæða til þess að við skoðum það svolítið þegar kemur að þessum meðferðarúrræðum. Ég held að það ætti öllum að vera ljóst að þegar um aðila er að ræða sem eru búnir að vera í neyslu í langan tíma þá þurfa þeir langt og mikið úrræði. Það er ekki nóg að fara í afvötnun á Vog, eins og flestir gera, og svo kannski nokkrar vikur á Vík, það þarf eitthvað meira. Þar höfum við haft góðar meðferðarstofnanir. Ég nefni Hlaðgerðarkot og Krýsuvík vegna þess að ég þekki til þeirra. Þær kunna að vera fleiri. Eins og ég segi þá hafa sumir sótt til útlanda en þar hefur ekki verið endurgreiðsla eða niðurgreiðsla frá íslenska tryggingakerfinu, að því er ég best veit, til þess að sækja slíkar meðferðir. Þetta getur verið alveg ofboðslega mikilvægt úrræði og svo mun það margborga sig ef við björgum mannslífum með þessum hætti, en ekki síður að auka líka virkni þeirra sem fara í þessa meðferð og hjálpa þeim að komast aftur út í samfélagið. Í einhverjum tilfellum getur það skipt máli að fara erlendis og komast út úr umhverfinu.

Mig langaði að nefna þetta sérstaklega því að þetta er mál sem brennur á okkur núna og ég vil hvetja hæstv. ráðherra áfram í því að ýta undir það að koma þessu samstarfi í ákveðinn farveg.

Ég hnaut líka um sérfræðihópinn um sjálfbæra þróun og tek undir að það verkefni sem hér er lýst varðandi sjálfbæran lífstíl á Norðurlöndum er mjög áhugavert og full ástæða til að fylgja því eftir.

Af ýmsu fleiru er að taka en tíminn er uppurinn. Ég vil hvetja okkur áfram í því að hvetja til norræns samstarfs, hvetja til þess að það sé talað um norrænt samstarf og að sú góða vinna sem á sér stað á vettvangi norræns samstarfs skili sér bæði inn til þings, inn í stjórnsýsluna og út í samfélagið allt.