131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:45]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra minna svolítið á vélarvana skip sem hrekst undan stormi og stórsjó í tilraunum sínum til að reyna að verja þróunarsjóðinn gegn ásælni okkar stjórnarandstöðuþingmanna sem viljum ekki nota allan sjóðinn, alls ekki allan sjóðinn, það er mikill misskilningur ef menn halda það, heldur einhvern hluta af þessum peningum til varðveislu gamalla minja sem tengjast sjávarútvegi. Við erum að tala um sjóð sem er mjög stór. Samkvæmt þeim upplýsingum sem sjávarútvegsnefnd fékk frá starfsmanni sjávarútvegsráðuneytisins er um að ræða sjóð sem hljóðar kannski upp á rúman hálfan milljarð króna, og þó að ekki tækist að fá nema einhverja tugi milljóna króna í það verkefni að varðveita gömul skip og báta og aðrar minjar sem tengjast sjávarútvegi væri hægt að gera alveg ævintýralega hluti fyrir þá peninga. Það er þetta sem við erum að tala um. Við erum ekki að tala um það að taka allan þennan stóra peningahaug og setja hann í fornminjar, langt í frá.

Af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir mikið úr því að þetta heyri allt saman undir menntamálaráðuneytið þá finnst mér það ákveðin rökvilla hjá honum því að mig rekur minni til þess að í sjávarútvegsráðuneytinu hafi starfsaðstöðu sagnfræðingur, Jón Þ. Þór, sem hefur skilað mjög merkilegu verki, m.a. verið að rita sögu sjávarútvegsins, og það vill svo til að ég á í safni mínu fyrstu tvö bindin sem komið hafa út í því ritverki og ef ég man rétt skrifar sjávarútvegsráðherra sjálfur innganginn að a.m.k. öðru bindanna þar sem hann talar mjög fjálglega um mikilvægi þess að varðveita sögu sjávarútvegsins. Þarna hefur, alla vega get ég ekki betur séð, sjávarútvegsráðuneytið tekið að sér að halda utan um starf sagnfræðings sem er að rita sögu sjávarútvegsins. Hvers vegna í ósköpunum ætti það þá ekki líka að heyra undir menntamálaráðuneytið ef varðveisla gamalla skipa og báta heyrir undir það sama ráðuneyti?