131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í þessu hjá hæstv. ráðherra því að við erum ekki að tala um að taka allar þessar 500–600 milljónir í það að varðveita gamlar minjar, við erum kannski að tala um að taka eitthvert brot af því fé, a.m.k. hef ég skilið það svo. Ég fæ heldur ekki skilið að sjávarútvegsráðuneytið, ef það á annað borð er að sjá til þess að saga sjávarútvegsins sé færð til bókar, geti þá ekki beitt sér fyrir því, ef vilji væri fyrir hendi, að það mál sem við höfum verið að reyna að tala fyrir í dag nái fram að ganga. Það þarf ekkert annað til en viljann. Ég kaupi það ekki að menn skjóti sér undan þessu með því að vísa í að málið heyri undir menntamálaráðuneytið, vísa í þjóðminjalög og vera með einhvers konar þvergirðingslegan og ferkantaðan hugsunarhátt. Þetta er bara spurning um vilja. Enn og aftur heiti ég á hæstv. ráðherra að sjá til þess að taka tillit til þessara sjónarmiða.