135. löggjafarþing — 102. fundur,  8. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[12:12]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí síðastliðnum er fjallað sérstaklega um bættan hag aldraðra og öryrkja og að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins.

(Forseti (RR): Forseti biður um ró í salnum og ef hæstv. félagsmálaráðherra gæti ívið hækkað rödd sína.)

Þá segir einnig að fylgt verði eftir tillögum örorkumatsnefndar um stóraukna starfsendurhæfingu og nýtt matskerfi varðandi örorku og starfsgetu. Jafnframt verði komið til móts við þann hóp sem er með varanlega skerta starfsgetu.

Frumvarp það sem ég mæli hér fyrir felur í sér breytingar á lögum um almannatryggingar en í því felast umtalsverðar hækkanir frítekjumarka vegna atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði ákvæði til bráðabirgða um að frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega verði hækkað í 100 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júlí 2008. Hið sama mun gilda um endurhæfingarlífeyrisþega. Þetta þýðir að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 100 þúsund krónum á mánuði án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað rúmlega 27 þúsund króna áður.

Alþingi samþykkti á yfirstandandi þingi lög um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Þar var kveðið á um margvíslegar breytingar á greiðslum í þágu aldraðra og öryrkja í samræmi við tillögur verkefnisstjórnar sem ég setti á laggirnar á síðasta ári sem ríkisstjórnin gerði grein fyrir í yfirlýsingu þann 5. desember 2007. Í hinum nýsamþykktu lögum er m.a. kveðið á um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára verði hækkað úr rúmlega 27 þús. krónum í 100 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júlí 2008. Hér er því gert ráð fyrir sams konar breytingu að því er varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega en síðastliðið vor var sú breyting gerð á almannatryggingalögum og lögum um málefni aldraðra að atvinnutekjur 70 ára og eldri hafa engin áhrif til skerðingar á bótum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Megintilgangur þess að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega er að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og gera þeim kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Í greinargerð með frumvarpi því er Alþingi samþykkti og varð að lögum í mars sl. kom fram að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar ynni að tillögum um framkvæmd sem ætlað væri að ná svipuðum markmiðum hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hvetja einstaklinga til vinnu. Fram kom að slíkar tillögur sem miði að því að tryggja örorkulífeyrisþegum 100 þúsund króna frítekjumark vegna atvinnutekna eða ígildi þess yrðu síðar lagðar fyrir Alþingi.

Þar sem fyrir liggur að niðurstöður vinnu framkvæmdanefndar forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar munu ekki liggja fyrir fyrr en síðla árs er með frumvarpi þessu lagt til að við lög um almannatryggingar bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða. Þar verði kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 3. málsliðar b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna, skuli örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geta valið um að hafa 100 þúsund króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Með þessu verður, eins og áður segir, frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega hækkað til samræmis við hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára, eða í 100 þúsund krónur á mánuði. Ef miðað er við heilt ár er viðmiðunin því 1,2 millj. kr. í stað þess 327 þúsund króna frítekjumarks á ári samkvæmt gildandi lögum. Lagt er til að hækkunin öðlist gildi 1. júlí 2008 og gildi til bráðabirgða þar til endurskoðað örorkumatskerfi hefur öðlast gildi og komi í stað frítekjumarksins.

Sú breyting sem nú er lögð til hefur til dæmis þau áhrif að bætur til einhleyps örorkulífeyrisþega, sem hefur 1.200 þúsund krónur í árslaun af atvinnu, munu hækka um tæplega 30 þúsund krónur á mánuði eða liðlega 356 þúsund krónur á ári. Ef þessi sami lífeyrisþegi hefði auk þess 600 þúsund krónur á ári í lífeyrissjóðstekjur munu bætur til hans hækka um rúmlega 13 þúsund krónur á mánuði til viðbótar vegna þess frítekjumarks sem samþykkt var í marsmánuði síðastliðnum vegna lífeyrissjóðstekna öryrkja og hækkunar á aldurstengdri örorkuuppbót. Greiðslur frá Tryggingastofnun hjá þessum öryrkja hækka þannig úr 85.421 krónum í júní í 128.814 krónur í júlí eða samtals um 43.400 krónur á mánuði. Heildartekjur hans hækka því um samtals 520 þúsund krónur á ári.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorkulífeyrisþega með launatekjur eða reiknað endurgjald í desember 2007 eða um 4.600 einstaklingar. Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar má áætla að þar af muni um 2.650 einstaklingar hafa ávinning af hækkun frítekjumarks á atvinnutekjur í 100 þúsund krónur á mánuði. Ekki er unnt að áætla fyrir fram þann fjölda sem mun nýta sér nýjar viðmiðunarreglur varðandi frítekjumark á atvinnutekjur en þess má vænta að talsvert fjölmennur hópur örorkulífeyrisþega nýti sér þetta tækifæri til þess að feta sig út á vinnumarkaðinn. Breytingin mun því fela í sér aukin tækifæri til handa örorkulífeyrisþegum með þeim auknu lífsgæðum sem þátttaka á vinnumarkaði felur í sér fyrir lífeyrisþegana sjálfa og samfélagið í heild.

Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að það er þjóðhagslega hagkvæmt að öryrkjar vinni, kjósi þeir að gera það. Þannig sýnir rannsókn Rannsóknarseturs verslunarinnar við Háskólann á Bifröst að slíkt muni auka framleiðni og þjóðhagslega hagkvæmni samfara því að tekjutengingar aldraðra og öryrkja verði afnumdar.

Eins og áður segir má gera ráð fyrir að hækkun frítekjumarksins muni leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur og lífsgæði þeim til handa. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á hækkun frítekjumarks í baráttunni fyrir bættum kjörum öryrkja og virkrar þátttöku þeirra í samfélaginu og er þessi breyting í samræmi við þeirra áherslur. Breytingin er jafnframt í samræmi við þau markmið sem hugmyndir örorkumatsnefndar um starfshæfnismat og starfsendurhæfingu byggja á. Í ljósi fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu mun hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega aðeins gilda til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hefur verið tekið upp. Mikilvægt er að svo sé til þess að nýjar aðgerðir hefti ekki starf og bindi ekki hendur þess starfshóps sem nú starfar að því að byggja upp nýtt örorkulífeyriskerfi.

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um þær breytingar sem í frumvarpinu felast og undirstrika að í því eru ákvæði sem stuðla að bættum kjörum öryrkja og eru til nokkurrar einföldunar á almannatryggingakerfinu. Ég vil jafnframt leggja mikla áherslu á að þeirri nefnd sem ég skipaði á síðastliðnu ári var falið að skila mér samræmdum tillögum fyrir 1. nóvember á þessu ári varðandi heildarendurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar er miði að einföldun hennar. Ég geri ráð fyrir því við séum sammála um nauðsyn þess að sú vinna fari fram og oft hefur komið fram í umræðum á Alþingi að núverandi kerfi sé allt of flókið og full þörf á því að einfalda það. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir úrbótum í lífeyristryggingakerfinu sem leiða til bættra kjara fyrir lífeyrisþega og jafnframt til réttlátara og einfaldara kerfis.

Ég læt þessari yfirferð yfir efni frumvarpsins og einstök ákvæði þess lokið og leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar og til 2. umr.