136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Öfugt við síðasta ræðumann, formann Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Geir H. Haarde, þá hef ég ekki mestar áhyggjur af forminu um þessar mundir enda ekkert við það að athuga. Áhyggjur mínar snúa að íslensku samfélagi, að íslenskum almenningi og hvernig honum reiðir af á næstu vikum, mánuðum og árum. Í samræmi við þá yfirlýsingu sem forsætisráðherra hefur flutt er búið að festa kjördag. Það er mikilvægt, þá getur utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafist og allir geta miðað sinn undirbúning eftirleiðis við þessa dagsetningu sem er þar með endanleg og föst.

Það er engu að síður ljóst að Alþingi þarf eftir sem áður að ljúka mjög mikilvægum verkefnum, brýnum, ívilnandi og stuðningsverkefnum sem snúa að heimilum, atvinnulífi og að lýðræðinu sjálfu, þeim lýðræðisumbótum sem þjóðin gerir kröfu um að ráðist verði í. Lýðræðið er líka mikilvægt. Það ber ekki að gleyma því að þjóðin upplifir það þannig að hún þurfi að fá það betur í sínar hendur og hafa sterkari stöðu hvað stjórnskipun og lög varðar til þess að ráða málum sínum og örlögum sínum sjálf eins og þjóð á að gera í lýðræðisríki. (Gripið fram í.) Það er enda mín skoðun, og ég tel að það sé eitt af því sem formenn stjórnmálaflokkanna eiga að ræða á næstu dögum, að stutt, vel skipulögð og hófstillt kosningabarátta sé best við hæfi við þessar aðstæður, hófstillt t.d. í þeim skilningi að öllum fjárútlátum verði haldið í algeru lágmarki. Stjórnmálaflokkarnir eiga ekki nú að bjóða þjóðinni upp á dýrar auglýsingar og íburð og glansmyndir, það væri síst af öllu við hæfi eins og málum er komið á Íslandi.

Ég er algerlega sannfærður um það líka að þjóðin gerir þær kröfur til Alþingis og alþingismanna að þeir vinni sína vinnu, að þeir skili þeim verkum sem bæta aðstæður hennar og gera okkur mögulegt að kjósa við þær skástu aðstæður sem í boði verða á Íslandi í dag. Það er mikilvægt verkefni og ég leyfi mér líka að draga í efa að það sé rétt nálgun að það hindri eðlilega lýðræðislega umræðu og pólitíska umræðu að Alþingi sé að störfum. Er ekki Alþingi þrátt fyrir allt einn mikilvægasti pólitíski vettvangur í landinu? Hér er fundað í heyranda hljóði, með vinnu hér og ræðuhöldum getur almenningur fylgst með því að mæta á þingpalla eða með því að horfa á sjónvarp, þannig að hér er líka vettvangur pólitískra skoðanaskipta og stefnumótunar. Ég held að stutt og vel skipulögð kosningabarátta sem fyrst og fremst fer fram frá og með páskum sé það sem er best við hæfi og þá þróast málin hér í takt við það sem þau hafa yfirleitt gerst í nálægum löndum, að flokkarnir sameinast um stutta og vel skipulagða kosningabaráttu.

Það eru óvenjulegir tímar, afbrigðilegir tímar á Íslandi og það skiptir miklu máli að menn nái að haga sínum störfum og sinni framgöngu í samræmi við það. Íslenskt þjóðarbú, íslenskt samfélag er grátt leikið vegna óstjórnar og mistaka, þar á meðal og ekki síst í stjórnmálum á undangengnum árum, og það eru ærin verkefni að greiða þar úr. Kosningarnar 25. apríl verða afdrifaríkar, kannski einhverjar þær mikilvægustu sem gengið hefur verið til í langan tíma og þær kosningar munu fyrst og fremst snúast um tvennt. Annars vegar að gera upp reikningana, þ.e. að gera upp reikningana við þá sem hafa brugðist þjóðinni að því marki sem það er hægt í kosningum. Það þarf að sjálfsögðu að gera það víðar og það er verið að því og mun verða gert í gegnum réttarkerfið og með ýmsum öðrum hætti. En kosningarnar þurfa líka að snúast um framtíðina, um endurreisnina og það hvernig menn sjá þá hluti fyrir sér, þar á meðal vonandi að það verði skýrir kostir í boði hvað það varðar að kjósa landinu áfram trausta og starfhæfa ríkisstjórn til að leiða málin á næstu mánuðum, missirum og árum. Ekki mun af veita að þar takist vel til því að ærin eru verkefnin til að greiða úr.