139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Það er stundum sagt í hálfkæringi að ekki megi láta góða kreppu fara til spillis og þetta getur svo sannarlega átt við í húsnæðismálum eins og mörgum öðrum málum. Sennilega hefur flestum orðið ljóst eftir hrunið að sú gegndarlausa séreignarstefna í húsnæðismálum sem hefur verið rekin á Íslandi undanfarin ár sé að stóru leyti gengin sér til húðar.

Víða erlendis er leiguhúsnæði alvöruvalkostur þegar fólk velur sér húsnæði til búsetu til langs tíma en svo hefur í rauninni ekki verið hér á Íslandi. Vandinn hérlendis hefur verið hvað þetta hefur valdið miklum óstöðugleika hjá þeim sem eru að velja sér leiguhúsnæði til íbúðar, meðal annars af þeirri ástæðu að þeir sem eru með íbúðir til útleigu eru ekki með þær á markaðnum til langs tíma. Eigendur leiguíbúða hafa þannig oft notað tækifærið þegar markaðurinn vaknar til íbúðasölu til að selja íbúðir sínar og öryggi leigjenda hefur þannig verið minna en skyldi.

Nú er það svo að margir húsnæðisleitendur eru brenndir af hækkunum á húsnæðiskostnaði þeirra sem hafa keypt húsnæði og eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur því aukist. Ég tel því lag, bæði fyrir stjórnvöld og þar með talið ráðherra, þingið, sveitarstjórnir, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, lífeyrissjóði, Íbúðalánasjóð og aðrar lánastofnanir, að nota tækifærið og stuðla að því að leiguhúsnæði verði raunverulegur valkostur í húsnæðismálum til langs tíma eins og séreign og búseturéttur er nú. Þannig tryggjum við fjölbreytta valkosti í húsnæðismálum og húsnæðisöryggi um leið.