139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Mörður Árnason minntist á mig í ræðunni og sagði að ég væri pirraður yfir því að verið væri að ræða nafnið. Pirringur er nokkuð sem hv. þm. Mörður Árnason þekkir ágætlega. Ég skal alveg viðurkenna að mig grunaði að þetta mundi fara svona. En með fullri virðingu fyrir nafninu þá eru aðrir þættir mikilvægari.

Þegar við erum að tala um eftirlitsþátt í heilbrigðismálum þá erum við t.d. að tala um lyfjaneyslu, ofneyslu á lyfjum, t.d. hjá vistmönnum, slysahættu, hegðunarörðugleika o.s.frv. Ég skal viðurkenna að mér finnst nafnið skipta máli en þetta er það sem ég var að vonast til að við mundum ræða í hv. heilbrigðisnefnd og færum yfir hér í þinginu.

Eins og hv. þingmanni þykir mér vænt um nafnið landlæknir. Vandinn er hins vegar sá, og við höfum ekki tæmt það, að við erum að sameina eftirlitsþáttinn forvarnahlutanum og lýðheilsunni, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur. Meiningar eru deildar og svo sem alveg ljóst að staðan gæti verið þannig að hér á landi væru ekki til staðar læknar sem væru t.d. með sérþekkingu í lýðheilsuhlutanum, alla vega fáir. Það eru sérvísindi sem margir eru að mennta sig í en þeir þurfa ekki að vera læknar til þess. Guðjón Magnússon læknir, blessuð sé minning hans, einn allra fremsti sérfræðingur á sviði heilbrigðismála, lagði t.d. mikla áherslu á að ekki yrði bundið í lög að læknir þyrfti að stýra þessari stofnun. Það er einn þáttur í málinu. Hins vegar eru þau rök að halda í gömul og góð heiti, sem hafa sögulega skírskotun í menningu okkar, svo sannarlega málefnaleg rök. En það eru önnur mál sem ég hefði viljað að við færum betur yfir.