139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

landlæknir og lýðheilsa.

190. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa miklum vonbrigðum með afgreiðslu málsins milli 2. og 3. umr. í hv. heilbrigðisnefnd. Í raun er verið að bruðla með peninga. Það er verið að henda tugum milljóna í aukahúsnæðiskostnað til að sameina stofnanirnar. Afleiðingin er skýr, það mun þurfa að segja upp starfsfólki til að ná fram þessari hagræðingu, væntanlega konum. Það er niðurstaðan. Þegar menn ræða hér um og deila um það hver muni hugsanlega bera kostnaðinn, hvort það sé stofnunin eða ráðuneytið, finnst mér þessi umræða vera á algjörum villigötum. Það kemur alveg skýrt fram og afleiðingarnar eiga að vera algjörlega fyrirsjáanlegar. Það sem er verið að gera hér er að verið er að bruðla með peninga og ekkert annað og niðurstaðan er sú að fólki verður sagt upp og hér verður meira atvinnuleysi. Það er ekki flóknara en það. Eins og ég sagði hérna áðan verður konum væntanlega sagt upp.

Það er dálítið skrýtið þegar hv. þingmenn ræða um að það sé hægt að réttlæta þessa sameiningu á þeim grunni sem hér er. Ég vísa því algjörlega á bug. Það liggur fyrir að það hefur verið unnið að málinu í heilt ár í þinginu, eða í ráðuneytinu, og það kom inn í október. Ekki enn þá hefur velferðarráðuneytið sýnt fram á fjárhagslega hagræðingu við sameiningu stofnana, ekkert enn þá, ekki nein gögn um það. Ég lýsi miklum vonbrigðum með það og ég leyfi mér að fullyrða að menn eru búnir að gleyma öllum ræðum um þau vinnubrögð sem voru stunduð og menn töluðu um í rannsóknarskýrslu Alþingis að ætti að breyta. Það er fyrirsjáanlegt hvað mun gerast.

Ég sat á fundi í hv. menntamálanefnd í morgun í forföllum annars hv. þingmanns og þar voru skilaboðin dálítið merkileg. Þar komu þrjár ungar konur til fundar við menntamálanefnd, tveir prófessorar og einn dósent, kennarar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Á hvað bentu þessar ágætu konur? Jú, þær bentu á að það væri búið að sauma svo að þessu námi að það gæti hugsanlega, svo ég vitni orðrétt í texta þeirra, haft í för með sér að öryggi sjúklinga yrði ógnað.

Hvað liggur á bak við það sem þessar ágætu konur benda á? Þær benda á að nú þegar sé búið að segja upp fjórum stöðum kennara og óvíst hvort aftur verði ráðið í tvær stöður.

Það vill þannig til að kostnaðurinn við þessar sex stöður við hjúkrunarfræðina í háskólanum sem búið er að segja upp, konum væntanlega, er nánast sá sami og er verið að bruðla með á hverju ári bara í húsnæði þessarar nýju stofnunar. Það finnst mér, frú forseti, algjörlega óásættanleg vinnubrögð. Þetta er ekkert nema bruðl.

Kostnaðurinn er 66 milljónir á fyrsta árinu, þ.e. 24 milljónir í húsaleigusamninginn úti á Seltjarnarnesi, 12 milljónir aukalega vegna stærra húsnæðis en þörf er fyrir undir stofnunina, það eru 36 milljónir. Til viðbótar er áætlað að það kosti 30 milljónir að flytja stofnunina, það kemur fram í skýringartexta með frumvarpinu. Það sem vakti athygli mína þar er að það á að taka af ónýttum fjárheimildum þessara tveggja stofnana. Eftir því sem kemur fram í frumvarpinu áttu þær 79,2 milljónir um síðustu áramót.

Þá langar mig að velta einu upp, nú liggur fyrir að það er ekki búið að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2009. Alþingi hefur ekki afgreitt ríkisreikning fyrir árið 2009. Þar tekur Alþingi ákvörðun um hvort og hvernig megi ráðstafa ónýttum heimildum. Þess vegna velti ég fyrir mér og sagði áðan: Vinnubrögðin hafa ekkert breyst. Ég stórefast um að Alþingi hafi heimild til að samþykkja þetta áður en búið er að samþykkja ríkisreikning vegna þess að það er ekki búið að samþykkja á Alþingi að þessar ónýttu fjárheimildir flytjist með stofnuninni. Samt er gert ráð fyrir því í frumvarpinu. Það sýnir virðingu framkvæmdarvaldsins fyrir Alþingi. Ég hélt, virðulegur forseti, að við ætluðum að breyta einhverju í þessu en það liggur fyrir að það er ekki gert. Það á að halda áfram á sömu braut. Það er boðið upp á að fara í sameiningu og það á ekki að fara yfir fjárhagslegan ávinning þó að fullyrðingin standi frá ráðuneytinu um að svo eigi að gera. Það er vitnað í einhverja skýrslu sem Stefán Ólafsson hefur gert og það kemur fram í framhaldsnefndaráliti frá minni hluta heilbrigðisnefndar að ekki hafi verið farið yfir grunninn að þeirri skýrslu og hvar þetta eigi að liggja. Mér er bara öllum lokið.

Eru hv. þingmenn ekki búnir að átta sig á verkefninu fram undan við að ná jöfnuði í ríkisfjármálum? Ég er ansi hræddur um að margir hverjir vildu heldur nota peningana í að bruðla í eitthvað annað en svona þegar þarf að fara að taka mjög erfiðar ákvarðanir í haust. Hér hef ég eingöngu rætt um það sem mun gerast á einu ári. Skoðum húsaleigusamninginn hjá landlæknisembættinu — sem er ekki því embætti að kenna, það má ekki skilja það á þann veg — það eru 17 ár eftir af honum. Ef maður reiknar hann upp eru það 408 milljónir ef ekki er hægt að endurleigja húsnæðið þannig að við erum að tala um 36 milljónir á hverju ári fyrir utan 30 milljónir í að flytja. Dettur einhverjum í hug að lifa í þeirri sjálfsblekkingu núna að halda að nokkuð annað geti komið á móti til að réttlæta hallann og niðurskurðinn á næstu fjárlögum en uppsagnir starfsfólks? Það er ekkert annað hægt. Hvers konar sjálfsblekking er þetta? Það liggur alveg fyrir að þessar stofnanir munu fá skerðingu á næsta ári eins og allar aðrar og það eina sem þessar stofnanir geta gert er að skera niður starfsmannafjöldann, það eru 70–80% af því sem það kostar að reka þessar stofnanir.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst margir hv. þingmenn lifa í hálfgerðri sjálfsblekkingu miðað við verkefnið fram undan. Það kemur fram í þessu nefndaráliti sem ég er með frá minni hluta heilbrigðisnefndar og það kom líka fram á fundum í hv. nefnd að það væri spurning hvort ráðuneytið ætlaði að taka þennan aukakostnað á sig eða stofnanirnar. Ég verð að viðurkenna að ég undrast það. Það er alveg ljóst í mínum huga að ráðuneytið getur ekki tekið á sig þessar skerðingar. Og það er einn faktor sem menn verða að fara yfir við gerð fjárlaga fyrir árið 2012. Við, fulltrúar í hv. fjárlaganefnd, erum með ábendingar frá fjármálaráðuneytinu um að á árinu 2011, sem er nú að líða, bendi allt til að hjá Sjúkratryggingum Íslands verði 2 milljarða halli. Verkefnin eru aldeilis næg. Svo halda menn að ráðuneytið hafi eitthvert borð fyrir báru. Svo er því miður ekki. Þess vegna er ég mjög svekktur og hef ekki leynt því í þessari umræðu að hér er verið að fækka störfum. Það er ekki hægt að bregðast við þessu með öðrum hætti. Annað er sjálfsblekking.

Í andsvörum áðan tók ég eftir því þegar hv. þingmenn ræddu um eftirlitsþáttinn í nýja embættinu að þeir héldu að það væri hugsanlega hægt að auka hann með því að hafa meira fjármagn. Það getur vel verið að það sé rétt. En fjármagnið til þessarar stofnunar mun minnka vegna þess að það er verið að bruðla með fé í húsnæðiskostnað. Það er hins vegar kannski ekki sanngjarnt gagnvart stofnuninni, ég er ekki að segja það, ég held því ekki því fram, alls ekki gagnvart þessu góða starfsfólki. Það má ekki skilja mig þannig. En það erum við sem tökum ákvörðun um það hvort við ætlum að samþykkja þetta mál og svo koma hv. þingmenn og segja að það sé sparnaður að því sem á að gera við sameininguna. Gott og vel, það getur vel verið að svo sé en ég vil sjá það svart á hvítu. Þegar menn segja að þeir ætli að sameina tvær stofnanir og spara hljótum við sem tökum ákvörðun, hv. þingmenn, að geta fengið þær upplýsingar sem ráðuneytin byggja grunninn á. Það er eðlileg krafa.

Við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem segir að í 85% tilfella þegar stofnanir eru sameinaðar mistakist sameiningin. Af hverju er það? Það er mjög einfalt. Það er vegna þess að undirbúningurinn og markmiðin eru ekki nógu skýr. Þetta er í gegnum áraraðirnar, það er ekki að byrja í dag. Þess vegna finnst mér mjög dapurlegt að við skulum ekki læra af því og gera þetta betur.

Mér finnst mjög sérkennileg krafa hjá heilbrigðisráðuneytinu að vilja klárlega henda 12 milljónum aukalega í húsnæðiskostnað. Það hafði þegar farið fram greining, eða húsrýmisáætlun held ég að það heiti, um hversu stórt húsnæði þyrfti undir nýja stofnun. En þá kvað það vera vegna þess að ákveðið húsnæði sem hér er haft í huga, húsnæði heilsuverndarstöðvarinnar, hefði ákveðna sögu — gott og vel með það — og því væri æskilegt að fara þangað. Það er stærra og dýrara. Fullt af húsum hefur sögu, húsum sem er verið að loka og verður sennilega lokað. Það eru margar heilbrigðisstofnanir úti á landsbyggðinni og þar fram eftir götunum þannig að rökin fyrir því að fara í þessa vegferð eru engin, finnst mér, a.m.k. mjög lítil vegna þess að áhættan felst í því að ef við bruðlum með peninga í húsnæði verðum við að skera niður einhvers staðar annars staðar. Það er mjög sláandi eins og ég kom inn á áðan að fá bréf frá tveimur prófessorum og einum dósent sem kenna hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands sem benda á staðreyndirnar sem blasa við okkur. Staðreyndirnar blasa við okkur sem og svörin sem við fáum með uppsögnum. Samt á að fara í þessa vegferð.

Maður spyr sig um sparnaðartillögurnar þegar stofnanir eru sameinaðar. Menn benda á símavörslu og annað. Gott og vel, það er ugglaust hægt að spara einhvers staðar en það er hægt að gera það án þess að sameina stofnanir. Ég á reyndar ekki sæti í hv. heilbrigðisnefnd en mér hefur fundist vanta miklu dýpri umræðu um málið. Ég fékk ekki svör, a.m.k. ekki í 2. umr., um hvort það hefði verið skoðað mjög vandlega hvort ekki væri hægt að nota samlegðaráhrif þessara stofnana þótt þær væru hvor á sínum staðnum. Það er hægt að hafa símsvörun hjá einkafyrirtæki og margar opinberar stofnanir hafa þann háttinn á. Það þarf ekki að sameina stofnanir og hafa símsvörunina í stofnuninni sjálfri. Það væri hægt að hafa hana hjá einkafyrirtæki þannig að það eru frekar lítil rök, finnst mér.

Það sem upp úr stendur er að hugsanlega á að samþykkja frumvarp á Alþingi, sem allt virðist stefna í, sem felur í sér bruðl á fjármunum sem nemur á þessu ári 66 milljónum og árlega væntanlega 36 milljónum sem annars eru 12 milljónir í meiri húsnæðiskostnað en þarf fyrir stofnunina, 24 milljónir í húsnæði sem er ekki vitað hvort þarf endilega. Og mér finnst þetta blasa við. Ég hvet hv. þingmenn til að lesa sér til, og ég efast ekki um að þeir hafi gert það. Það sem ég skil sem varnaðarorð frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er að þar segir einfaldlega að ef valinn verði sá kostur að fara eftir beiðni heilbrigðisráðuneytisins eða velferðarráðuneytisins um að taka stærra og dýrara húsnæði en þörf er á fyrir þessa stofnun kosti það aukalega 2% í niðurskurð. Ef við gefum okkur það, sem er ekki í hendi, það er a.m.k. ekki í hendi enn þá, að búið sé að leigja húsnæði sem önnur stofnun er í eru það 24 milljónir sem þýðir að það verður að skera niður hjá stofnuninni aukalega um 6% út af húsnæðismálunum hvað sem Alþingi gerir svo kröfu á viðkomandi stofnanir um að skera. Engin stofnun mun sleppa við það og við heyrum neyðarópin alls staðar. Það mun engin stofnun sleppa við að skera niður á næsta ári og þá er það til viðbótar þessum 6% sem er þegar verið að bruðla með að mínu mati.