139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[18:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður verður allt að því hræddur þegar maður heyrir hv. þm. Skúla Helgason, framsögumann nefndarálits meiri hlutans, tala vegna þess að hann talar um að finna þurfi leiðir til að laga bankana. Hann er samt að leggja til að samþykkt verði skuldbinding á ríkissjóð um ekki bara litlar upphæðir heldur risaupphæðir. Ég sé ekki annað en það sé skuldbinding á ríkissjóð ef bankarnir fara á hausinn. Hvað ætlum við þá að gera?

Ég vil spyrja hv. þingmann, eins og ég spurði hæstv. fjármálaráðherra fyrir nokkrum dögum: Er ríkisábyrgð á innstæðum? Í 40. gr. stjórnarskrárinnar, 2. mgr., segir: „Ekki má heldur taka lán er skuldbindi ríkið …“ — þarf þá ekki að setja þetta í fjárlög, skuldbindingu fyrir því að taka yfir um það bil 2.000 milljarða? Það er það sem við erum að gera.

Ekki er búið að taka tilskipunina sem við erum að fara eftir upp á EES-svæðinu þannig að okkur ber ekki einu sinni skylda til að taka hana upp. Mér finnst því alveg furðulegt að menn skuli vera að leggja til að taka á sig þessa gífurlegu skuldbindingu, og ég vil spyrja hv. þingmann: Er það ekki rétt skilið hjá mér að við þurfum ekki að gera þetta samkvæmt reglunum um EES-svæðið því að ekki er búið að taka það upp þar, mér skilst að Norðmenn séu á móti því? Ég spyr hv. þingmann líka að því sem ég spurði formann Norðurlandaráðs, hv. þm. Helga Hjörvar, um: Hafa menn skoðað það að taka upp samnorrænan innstæðutryggingarsjóð sem mundi þá að minnsta kosti gera þetta eitthvað léttbærara?