144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað eru 50 milljónir talsverðir fjármunir og við erum oft að velta hér vöngum yfir lægri fjárhæðum. Það væri víða hægt að nota slíka fjármuni ef menn héldu í alvöru að það mundu hreinlega sparast 50 milljónir við að leggja Bankasýsluna niður. Ég hef ekki gefið mér að þetta sé þannig að fjármálaráðuneytið sé svo vel yfirmannað að það geti bætt svona löguðu á sig sem hreinni aukagetu vegna þess að það þarf að vanda utanumhaldið um þetta eignarhald. Ég hefði líka búist við því að fjármálaráðuneytið væri þá í skipulagslegu tilliti jafnvel búið að undirbúa þessi tímamót betur þannig að þar væri komin, sem ég held að væri að mörgu leyti æskilegt að gera, jafnvel óháð þessu, einhver sjálfstæð eignarhaldseining þannig að þetta væri ekki eins og þetta var á mínum tíma, og er kannski að einhverju leyti enn, í raun bara inni á venjulegum skrifstofum í ráðuneytinu þar sem mörg önnur verkefni og viðfangsefni eru, jafnvel sum hver viðkvæm vegna þess að ráðuneytið er jafnframt ráðuneyti fjármálamarkaðarins og fer með löggjöfina um hann.