144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[17:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála því sem hér hefur komið fram, að þetta séu litlar upphæðir, þetta hafa verið 374 milljónir á síðustu sex árum og það er sannarlega hægt að nýta þá upphæð í ýmislegt annað.

Nú talar hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. ráðherra mjög mikið um armslengdarsjónarmið og það liggur alveg fyrir að hugsunin um Bankasýslu var sú að hún mundi halda utan um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum. En það er ekki tryggt. Við vitum að það voru tveir sparisjóðir sem fyrrverandi hæstv. ráðherra hélt á sjálfur þrátt fyrir að Bankasýslan væri til staðar, Byr og SpKef. Ég var þá í hv. viðskiptanefnd. Við vitum líka að það komu tillögur frá Bankasýslunni um hvernig átti að fara um meðferð sparisjóðanna. Þeir gerðu ráð fyrir að taka Byr og SpKef og sömuleiðis voru menn með aðrar hugmyndir varðandi sparisjóðina. Það var ekkert farið eftir því. Getum við ekki verið sammála um að þó að menn setji á svona stofnun tryggi það ekki armslengdarsjónarmið? Ég þekki það úr sögunni.