144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[20:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem ég átti við, þegar ég var að tala um að Ríkiskaupum yrði falið að annast þetta í stað Bankasýslunnar eins og nú er, er að ég tel að til hafi orðið þekking á því umhverfi sem við er að fást í þessu sambandi. Ég er ekki sannfærð um að sú þekking sé til staðar í Ríkiskaupum og ætla ég þó ekki að draga úr því að starfsmenn Ríkiskaupa eru eflaust hið mætasta fólk eins og hv. þingmaður komst hér að orði um starfsmenn Bankasýslunnar.

Ég er bæði að tala um nefndina og starfsmennina. Ég held að við eigum að bera virðingu fyrir því starfi sem þar hefur verið unnið. Þess vegna hef ég sagt hér að ef við teljum að eitthvað hafi ekki gengið alveg eftir — í ljósi afstöðu þingmannsins, sem kom í andsvar við mig — á síðasta kjörtímabili varðandi þetta mál mundi ég vilja lagfæra það á meðan staðan er eins viðkvæm og hún er, í ljósi haftanna og í ljósi þess að við erum enn með óseldar eignir. Það hefur verkast þannig til að okkur gekk hægar að koma okkur af stað út úr því ástandi sem skapaðist vegna hruns fjármálakerfisins.

Ég get spurt þingmanninn til baka hvort hann telji ekki sjálfur að ekki þurfi að fara alla þessa leið heldur væri hægt að lagfæra þetta, það sem hann telur þá vera að, fremur en að leggja stofnunina niður á þeim tímapunkti. Hvernig lítur hann svo á dagsetninguna 1. janúar 2016, hver verða afdrif stofnunarinnar frá miðju þessu ári og fram til áramóta? Það er eitthvað sem við getum kannski átt samskipti um.