149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. En orð mín í fréttum sem hv. þingmaður las hér upp merkja í rauninni ekkert annað en að breytingar á stjórnarskrá þurfa að hljóta samþykki samkvæmt gildandi stjórnarskrá á þingi, á Alþingi Íslendinga, ekki bara einu sinni heldur tvisvar, þ.e. annars vegar á þessu þingi, vonandi, sem nú starfar og síðan að loknum öðrum þingkosningum. Það er það fyrirkomulag sem er í gildandi stjórnarskrá.

Þannig að hv. þingmaður má ekki skilja orð mín öðruvísi en svo að ætlum við að gera breytingar á stjórnarskrá, sem ég vil að verði gerðar og ég vona að sem flestir þingmenn séu mér sammála um að er löngu tímabært að gera, þá er mikilvægt að þær fari hér í gegnum þingið því að aðra leið höfum við ekki til að breyta stjórnarskrá.

Ég lít hins vegar líka svo á að við öll sem hér sitjum, bæði ég og hv. þingmaður og allir aðrir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, sitji hér í umboði þjóðarinnar, og skyldur okkar eru ekki eingöngu gagnvart okkar kjósendum í okkar kjördæmi heldur gagnvart samfélaginu öllu og þjóðinni allri. Þess vegna ber okkur ávallt að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum okkar. Ég tel að það séu ríkir almannahagsmunir í þá veru að við náum fram nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá. Því hef ég lagt fram þá tillögu að vinnulagi sem við höfum unnið eftir það sem af er þessu kjörtímabili, að staðið verði að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum. Þau ákvæði sem voru tilefni þessarar fréttar og fóru í samráðsgátt stjórnvalda nú fyrir helgi eru einungis fyrsti áfanginn á þeirri leið.

Það er mikil vinna eftir. Ég vil hins vegar segja að ég hef verið mjög ánægð með þessa vinnu. Ég er bjartsýn á að hún muni skila breytingum á stjórnarskrá og að við munum fá fleiri ákvæði til samtals í samfélaginu. Ég vil líka nefna það í þessu samhengi að það samtal mun ekki eingöngu fara fram í gegnum samráðsgáttina þó að þessi tvö ákvæði hafi farið þá leið, heldur var enn fremur sú ákvörðun tekin á síðasta fundi að við munum ráðast í rökræðukönnun, sem ég held (Forseti hringir.) að verði mikilvæg tilraun í þágu lýðræðis í landinu á þessu ári.