149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

afgreiðsla frumvarps um þungunarrof.

[15:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra. Víkjum aðeins að Sjálfstæðisflokknum. Hann hefur lagt mikið af mörkum við að stuðla að þeirri sátt sem segja má að hafi ríkt í íslensku samfélagi þegar kemur að þessum viðkvæma málaflokki. Nú gerist það að í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að hefur hæstv. heilbrigðisráðherra ákveðið að rjúfa þessa sátt og rífa upp með rótum. Fyrir fram vil ég ekki trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beygt sig í þessu máli til að tryggja stuðning Vinstri grænna við þriðja orkupakkann. Því hefur verið kastað hér fram í umræðunni að hrossakaup af slíku tagi hafa átt sér stað innan vébanda stjórnarflokkanna.

Það er þyngra en tárum taki, herra forseti, að lífsréttur ófæddra barna sé ekki meira virtur en raun ber vitni þegar um er að ræða flokka (Forseti hringir.) á borð við Framsóknarflokkinn [Kliður í þingsal.] og Sjálfstæðisflokkinn, (Forseti hringir.) að ekki sé minnst á þann flokk (Forseti hringir.) sem á sæti í ríkisstjórn í fyrsta sinn.