149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

afgreiðsla frumvarps um þungunarrof.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Eins og kom fram í mínu fyrra svari er hér um að ræða grundvallarmál. Það er alrangt sem hv. þingmaður gefur í skyn að um svona grundvallarmál eigi sér stað hrossakaup af nokkru tagi. Það er bara ekki svoleiðis, verð ég að segja, herra forseti.

Og mér finnst ekki við hæfi að tengja hér allsendis óskyld mál. Það frumvarp sem hér liggur frammi — og ég ítreka að ég hef fullan skilning á því að á því séu ólíkar skoðanir — er slíkt grundvallarréttindamál og varðar mína pólitísku sannfæringu svo djúpt því það snýst um réttindi kvenna yfir sínum eigin líkama. Konur verða aldrei sjálfstæðar fyrr en þær hafa þau fullu réttindi.

Einhverjir hefðu viljað ganga lengra og hafa engin tímamörk á og treysta konum til fulls. Það er mín persónulega afstaða. En ég mun styðja þetta frumvarp (Forseti hringir.) hér á eftir og ég læt ekki segja mér að um þetta mál eða mál af slíku tagi, sem er jafn alvarlegt og raun ber vitni, að mér, eða samstarfsfólki mínu í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, (Forseti hringir.) myndi detta í hug að fara í einhver hrossakaup um það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)