149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

sáttanefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

[15:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja um þetta viðkvæma og flókna mál. Ég get byrjað á því að svara hv. þingmanni að sú sáttanefnd, sem skipuð var með aðkomu þriggja ráðuneyta undir forystu Kristrúnar Heimisdóttur, er enn starfandi. Frá byrjun var ljóst að Andri Árnason yrði settur ríkislögmaður, þannig að það eru ekki ný tíðindi í þessu máli heldur hefur hann starfað með nefndinni frá upphafi vegna vanhæfis ríkislögmanns. Það hefur legið fyrir frá upphafi.

Það er hins vegar svo að þarna er um mjög ólíka hópa að ræða. Þeir fimm sakborningar sem sýknaðir voru með dómnum, sem mér fannst rétt að bregðast við með afsökunarbeiðni af hálfu stjórnvalda, m.a. vegna þess að þessir einstaklingar voru beittir harðræði á sínum tíma, svo það sé algerlega skýrt af minni hálfu og viðurkennt — þetta eru fimm einstaklingar eða hópar, annars vegar þrír sem enn lifa og hins vegar afkomendur tveggja sem ekki eru lengur á meðal vor.

Sú hugmyndafræði sem lagt var upp með í störfum sáttanefndar var að kanna hvort möguleiki væri að ná sátt við alla þessa aðila í ljósi þess að ólíkt lagaumhverfi gildir hvað varðar miskabætur annars vegar um þá sem enn lifa og hins vegar um afkomendur. Markmiðið var að reyna að ná heildarsamkomulagi.

Nefndin er enn að störfum sem og settur ríkislögmaður, þannig að ég bind að sjálfsögðu vonir við að slíkt samkomulag megi nást.

Hvað varðar Erlu Bolladóttur, sem hefur komið á minn fund, bara svo því sé haldið til haga, hefði ég að sjálfsögðu viljað að allt gengi þetta miklu hraðar fyrir sig. Ég get líka sagt það hér. En hennar sérstaða er óneitanlega nokkur þar sem beiðni hennar um endurupptöku var hafnað á sínum tíma. Hún hefur því nokkra sérstöðu (Forseti hringir.) frá öðrum þeim sem heyrðu undir dóminn. En það breytir því ekki að mál hennar hefur líka verið til skoðunar.