149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

sáttanefnd í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

[15:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Mig grunar að það sé nokkur léttir, bæði hjá Erlu Bolladóttur og fulltrúum þeirra einstaklinga sem þarna eru undir vegna þess að ég hef rætt við þrjá af þessum fimm hópum og heyri að þau vita ekkert hvað er að gerast. Þau fá ekki svör og nefndin virðist gufuð upp að þeirra mati. Þau skilja ekki hvað er í gangi og það er mjög óheppilegt og auðvitað ríkir ákveðið vantraust í garð stjórnvalda.

Mig langar í seinna andsvari að spyrja hæstv. forsætisráðherra líka út í það, þar sem fregnir hafa borist til okkar um að þýskir þingmenn séu núna að fara fram á rannsókn á þátttöku hins þýska rannsóknarlögreglumanns á þessu máli, hvort forsætisráðherra sé tilbúinn að koma að því að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar til þess að það verði farið í eitt skipti fyrir öll ofan í þetta mál, (Forseti hringir.) hvernig að rannsókninni var staðið og hvers vegna okkur tókst svona hrikalega til í þessu ofboðslega erfiða máli.