149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

nefnd um eignarhald á landi.

[15:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra skipaði á haustdögum starfshóp um endurskoðun laga og reglna varðandi eignarhald á landi og fasteignum. Það var gert í kjölfar vinnu á vegum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald á bújörðum. Ég vona innilega að þessi vinna gangi hratt og vel því að með andvaraleysi tapast eignarhald á auðlindum Íslands. Allt land er auðlind, landið sjálft, jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst. Land nýtist í margt, m.a. til matvælaframleiðslu, og landi geta fylgt hlunnindi eins og veiði-, námu- og vatnsréttindi. Meðferð og notkun lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og hverri annarri fasteign.

Þjóðlendur eru nú um 44% landsins en land sem hvorki tilheyrir þjóðlendum né þéttbýli skiptist í jarðir sem eru yfir 50% af landinu. Bújarðir á Íslandi eru 6.000–7.000 og hefur ásókn aukist í að kaupa landeignir án markmiða um búsetu eða nýtingu og án eðlilegrar ábyrgðar sem ætti að fylgja eignarhaldi á landi. Samhliða færist eignarhald auðlinda á færri hendur, úr landi, búseta leggst af, byggðir veikjast og ekki næst í fyrirsvarsmenn jarða og fleiri vandkvæði koma upp. Þegar land gengur kaupum og sölum sem hluti af eignum félaga virðast þó þær takmörkuðu reglur sem við eigum um ráðstöfun lands ekki ná yfir aðilaskiptin.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er staðan í vinnunni? Nær vinna hópsins til allra jarð- og landeigna? Mun vinna hópsins ná utan um verkefnið í heild og tryggja að auðlindir á landi haldist í eigu landsmanna eða þarf meira til?