149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[15:59]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir sem og hæstv. forsætisráðherra sem gefur sér tíma til að vera hér í dag. Mönnunarvandi í stórum kvennastéttum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum er staðreynd, því miður, og það eru þá einna helst umönnunar- og menntastéttir. Starfsaðstæður eru krefjandi og álag innan velferðarkerfisins virðist alltaf aukast og það sem meira er, það er verið að berjast um sama starfsfólkið. Til dæmis geta stærri stofnanir eins og Landspítali yfirborgað hjúkrunarfræðingum og þar með sitja aðrar stofnanir eftir. Það sem þarf að fylgja hér með er að jafnlaunavottun jafnar ekki á milli stofnana sem þó væri æskilegt þar sem um opinberar stofnanir er að ræða.

Það segir sig sjálft að kjarasamningar opinberra starfsmanna hafa áhrif á velferðarkerfið og þar með hlýtur það atriði að hafa áhrif á fjármálaáætlun. Það er sláandi staðreynd að fimmti hver hjúkrunarfræðingur er hættur að starfa við hjúkrun fimm árum eftir útskrift. Þetta segir okkur aðeins eitt: Álagið er of mikið og launaröðun hjúkrunarfræðinga hefur ekki byggt á sama grunni og annarra sambærilegra stétta. Ef litið er til kvennastétta, eins og ég sagði í byrjun, umönnunar- og menntunarstétta, þarf að vanda til verka og horfa til framtíðar. Hið opinbera þarf að setja sér skýrari stefnu varðandi launasetningu opinberra starfa þannig að greidd séu sambærileg laun fyrir sambærileg störf þar sem horft er til menntunar, ábyrgðar og frammistöðu og það þvert á stofnanir.