149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

kjaramál.

[16:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka sérstaklega fyrir þessa mikilvægu umræðu og það sem nefnt hefur verið hér nokkrum sinnum og kannski ekki verið farið mikið ofan í, en er, held ég, eitt brýnasta verkefni okkar á komandi árum, þ.e. hvernig ætlum við að meta menntun til launa. Við munum glíma við miklar þjóðfélagsbreytingar á næstu árum þar sem sífellt meiri krafa verður gerð til þekkingar og menntunar þar sem þróunin sem fylgir fjórðu iðnbyltingunni, samkeppnishæfni okkar fram á veginn, grundvallast á þekkingarstigi okkar sem þjóðar.

Á sama tíma verður ekki sagt fyrir stóran hóp launafólks á vinnumarkaði, millitekjuhópsins, sérstaklega kvennastétta, að menntun þeirra borgi sig. Bara alls ekki. Raunar er það svo að í alþjóðlegum samanburði er leitun að vestrænu samfélagi þar sem menntun er jafn illa launuð og hér á landi. Það er áhyggjuefni fyrir okkur. Það snýr að grundvallarsamkeppnishæfni þjóðarinnar. Við umbunum kennurum ákaflega illa fyrir störf þeirra, svo dæmi séu tekin, og það er áberandi að sjá raunverulega ákveðinn hroka sem felst í því hversu mikill launamunur er orðinn á milli grunnskólakennara, eins mikilvægir og þeir eru, og svo aftur háskólakennara. Hvernig skyldu kynjahlutföllin í þeim stéttum vera. Jú, um 90% grunnskólakennara eru konur, en meiri hluti kennara háskólans eru karlar. Skyldi það vera skýringin á þessu?

Það var þess vegna sem þingflokkur Viðreisnar stóð fyrir því að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Það olli mjög miklum vonbrigðum að núverandi þingmeirihluti tók þá tillögu og stakk hinni snyrtilega undir stólinn. Ekkert hefur verið gert með það mál síðan. Því var vísað til ríkisstjórnarinnar og þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður um það hér fyrr í vor hvað gert hefði verið við málið var stutta svarið: Ekki neitt.