150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:23]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að lengja umræðuna en ætla þó að reyna að vera fremur knappyrtur en langorður. Mér finnst samt nauðsynlegt að koma aðeins inn í umræðuna í þessu máli sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur unnið í ágætissamstöðu lengst af og í raun í öllum grundvallaratriðum komist að sömu niðurstöðu. Það er breið sátt um það í nefndinni að þessi aðferð, þ.e. að veita lokunarstyrki og stuðningslán, sé leið sem sé skynsamleg og sem við eigum að nota.

Ég tel að það sé rétt strax í upphafi að geta þess að þær breytingartillögur sem skipta kannski einna mestu máli, þ.e. að breyta annars vegar upphæðunum og hins vegar mörkunum á veltu fyrirtækjanna, skipta gríðarlega miklu máli. Ég taldi raunar strax í upphafi að slíkur eðlismunur væri á fyrirtæki sem væri með undir 100 millj. kr. veltu annars vegar og fyrirtæki sem væri kannski með 500 millj. kr. veltu eða þaðan af meira hins vegar að það skipti miklu máli að við reyndum að hafa stuðninginn fyrir þessar tegundir fyrirtækja ekki nákvæmlega eins. Það hefur orðið að ráði hjá nefndinni og er í raun búin til svokölluð þriðja leið. Þegar höfðum við hér á þinginu samþykkt í ágætri samstöðu leiðina sem er kölluð brúarlán. Þessi leið átti að vera leið tvö. En það hefur komið í ljós í vinnu nefndarinnar að munurinn á mjög litlum fyrirtækjum og meðalstórum fyrirtækjum, alla vega meðalstórum hvað varðar veltutölur, er umtalsverður. Þess vegna er sú leið sem er farin, að búa til nokkurs konar millistig á milli brúarlána og „hreinna stuðningslána“, mjög skynsamleg. Auðvitað breytir þetta þeim ábyrgðum sem ríkið þarf að takast á hendur, það er enginn vafi því. En ég held að allir hafi í raun verið sammála um að það að bjóða fyrirtæki með 500 millj. kr. veltu upp á stuðningslán upp á 6 millj. kr. hefði kannski ekki tommað neitt sérstaklega mikið í rekstur þess fyrirtækis eða vegið þungt í því að bjarga fyrirtækinu frá endanlegu þroti. Sú leið sem er farin er að því leyti skynsamleg.

Í þessum millilánaflokki þar sem er 85% ríkisábyrgð og 15% ábyrgð fjármálafyrirtækisins getur hámarkslán orðið 40 millj. kr. Aftur er það ekki neitt svakalega há upphæð fyrir fyrirtæki sem er með 1.200 millj. kr. veltu, alls ekki, en mun vafalítið skipta minni fyrirtækin verulegu máli og þýðir í raun að fyrirtæki með allt að 400 millj. kr. veltu geta fengið allt að 10% stuðning miðað við fyrri rekstur. Þetta skiptir miklu máli og við berum þá von í brjósti að þetta muni verða til að bjarga mörgum störfum og auðvitað fyrirtækjunum sem standa fyrir þessum störfum.

Það hefur töluvert verið rætt, herra forseti, um skilyrðin og hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að úrræðið yrði misnotað. Fram hefur farið töluvert mikil vinna í nefnd við að reyna að finna leiðir og bæði ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafa komið á fund nefndarinnar til að ráða nefndinni heilt. Sú niðurstaða sem meiri hluti nefndarinnar kemst að er ekki fullkomin í þeim skilningi að hún girðir ekki algerlega fyrir að menn geti átt fjármuni í útlöndum eða flutt fjármuni úr landi. Það er alls ekki þannig, enda má það í íslenskum lögum. Hins vegar tel ég og meiri hluti nefndarinnar að þau skilmerki sem eru sett, um CFC-skýrslur, raunverulega eigendur og ársreikninga, muni hafa nokkurn fælingarmátt. Ég held hins vegar að sú umræða sem hefur verið bæði á þingi og í landinu undanfarna daga, um hvernig almenningur og stjórnmálamenn bregðast við þegar kemst upp um fyrirtæki sem eru að reyna að fara á svig við reglur, og kannski ekki endilega það en nota sér þær þrátt fyrir að þurfa ekki á þeim að halda, muni hjálpa okkur við að tryggja að fyrirtæki sem ekki þurfa á stuðningi að halda leiti ekki í hann.

Enn önnur leið sem nefndin fer til að reyna að taka á þessu er að breyta refsiákvæðunum. Nú er það svo, herra forseti, að ég er ekki í eðli mínu refsiglaður maður. Ég er ekki sá sem leggur til að öllum sé dengt í fangelsi eða sektaðir upp í rjáfur. En ég held að það skipti máli, til að menn átti sig á þeirri samfélagslegu ábyrgð sem þeir axla með því að þiggja stuðning frá ríkinu, að viðurlög séu þannig að menn skilji það að með því að brjóta reglurnar, með því að hafa fjármuni úr opinberum sjóðum án þess að eiga rétt á þeim, þá kunni þeim að verða refsað, bæði fjárhagslega en einnig með fangelsisdómum. Þannig eru fangelsisákvæði laganna. Fangelsisrefsingar eru hækkaðar úr tveimur árum upp í sex sem hámark og sektarákvæðin eru skýrð þannig að ef menn rýna nefndarálitið og breytingartillögurnar vel þá geta sektir til einstaklinga numið allt að 65 millj. kr. og sektir til lögaðila, ef ég man rétt, um 800 millj. kr. samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem vísað er í í nefndaráliti og frumvarpinu eða breytingartillögunum.

Þetta skiptir verulegu máli, herra forseti, því að eins og allir þingmenn sem hér hafa komið í dag hafa ítrekað þá skiptir gríðarlega miklu máli að af þeim takmörkuðu fjármunum sem ríkisvaldið hefur úr að spila séum við ekki að sólunda þeim til þeirra sem ekki þurfa á þeim að halda. Við séum ekki að sólunda þeim til þeirra sem ekki treysta sér til að taka fullan þátt í samfélaginu með skattgreiðslum sínum og með því að fara eftir sömu reglum og við hin.