151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

börn á biðlistum.

[13:21]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra meinar vel, en á meðan biðlistarnir eru að lengjast þá er eitthvað að, og m.a. hjá stofnun sem heyrir undir hæstv. ráðherra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Biðlistarnir hafa ekki verið að styttast. Að einhverjar stofnanir heyri undir heilbrigðisráðuneytið skiptir börn á biðlista bara engu máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það skiptir engu máli hvort það er á ábyrgð hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur eða Ásmundar Einars Daðasonar. Börn á biðlista, það á bara ekki að líðast. Ég veit að fram undan eru kerfisbreytingar, en biðlistar eru eðli málsins samkvæmt afleiðing fjárskorts og álags. Við getum leyst það, við sem höfum fjárveitingavaldið, og við hljótum að geta það. Við erum öll sammála um það. En látið þá peningana fylgja. Hér er fjármálaáætlun opin. Af hverju klárum við þetta ekki í eitt skipti fyrir öll? Það er 80% aukning á bráðainnlögnum á BUGL milli ára. Hugsið ykkur, 80%. Þessar þrjá lykilstofnanir eru að öskra á okkur: Látið okkur fá meiri fjármuni, þá getum við unnið á þessum biðlistum. Ég ítreka: Við höfum einn barnamálaráðherra og það er hæstv. ráðherra.

Taktu þér tak, hæstv. ráðherra, og þurrkaðu út þessa biðlista fyrir börn. (Forseti hringir.) Við þurfum að setja geðræna heilsu barna í fremsta forgang og við hljótum (Forseti hringir.) öll að vera sammála um það.