151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

hækkanir almannatrygginga og lauanþróun.

[13:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í upphafi kjörtímabilsins var reynt að fara í kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu. Þar var undir starfsgetumat. Það tókst ekki þannig að farið var í að breyta krónu á móti krónu skerðingunni í aura á móti krónu skerðingunni. Það voru 4 milljarðar sem voru hengdir upp sem svona gulrót til þess að fara yfir starfsgetumatið og ekkert annað hefur gerst síðan þá.

Nú velti ég því fyrir mér, sérstaklega í framhaldi af fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar: Af hverju er ekki verið að fara eftir lögum um almannatryggingar? Þar stendur mjög skýrt að það eigi að hækka lífeyri almannatrygginga miðað við verðbólgu eða, ef launaþróun er hærri, miðað við launaþróun. Hérna erum við að glíma við hins vegar þann sannleika að sú þróun hefur gegnumgangandi verið lægri en launaþróun og á undanförnum rúmum 20 árum munar þar 56%, þ.e. ef lífeyrir almannatrygginga hefði fylgt launaþróun þá væri núverandi tala 56% hærri, sem útskýrir þessar tölur sem var farið yfir í óundirbúnum fyrirspurnum áðan. Þetta er nákvæmlega talan sem vantar. Á þessu kjörtímabili er þessi skerðing, þessi munur, 5,7%. Það þýðir bókstaflega að ein launahækkun eins árs hverfur fyrir þennan hóp. Allir aðrir fá launahækkanir á hverju ári miðað við lífskjarasamninga o.s.frv., nema þeir sem eru með lífeyri almannatrygginga. Þeir þurfa að sleppa einu ári á hverju kjörtímabili. Það er staðan. Þannig að ég velti fyrir mér: Hvað vill ríkisstjórnin gera í þessu? Í lok kjörtímabilsins er enginn árangur í nákvæmlega þessu og við stöndum uppi með enn meiri kjaragliðnun, (Forseti hringir.) þetta er alltaf það sama. Hvað á að gera?