151. löggjafarþing — 102. fundur,  27. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal reyna að bæta ekki miklu við, dýpka frekar það sem ég sagði áðan. Hv. þingmaður talar um mögulegt ístöðuleysi samgönguráðherra sem hindrun í vegi þess að stjórnarflokkarnir komi sér saman um framtíðargjaldtöku af samgöngum. Mig langar að henda þeirri hugmynd í pottinn að mögulega geti þetta líka verið vegna þess að þetta er málefni þar sem þrír ráðherrar þurfa í rauninni að koma sér saman um niðurstöðu, fjármálaráðherra og umhverfisráðherra þyrftu að koma að þessu borði líka til þess að vel sé gert. Þá erum við komin að grunnvanda ríkisstjórnarinnar, að vera samansett úr þremur flokkum sem deila ekki sýn á þessi mál og þá verður kyrrstaðan staðalástandið frekar en einhverjar breytingar.

Ég ætlaði að tala um strætó, kom því ekki að í fyrra andsvari, vegna þess að það er hluti af þróun á gjaldtöku. Það að gera fólki kleift að fara í grænni samgöngukosti er líka að hleypa því yfir í strætó og almenningssamgöngur. Þar langar mig að velta upp tveimur vinklum sem hafa verið til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd sem ég skil ekki heldur af hverju við erum strand með. Annars vegar er sú hugmynd að koma almenningssamgöngum inn í samgönguáætlun sem hluta af grunnneti samgangna til þess að það að binda landshluta saman með almenningssamgöngum verði jafn sjálfsagt og að binda þá saman með vegum. Hins vegar er það sem mér datt í hug af því að ég las óvenju berorða umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við frumvarp sem við erum með til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem er rifjað upp að nefndin hefur tvívegis (Forseti hringir.) hvatt ráðuneytið til að setja lög um almenningssamgöngur, árið 2017. (Forseti hringir.) Það líður og bíður og gerist ekki neitt. Hvað veldur hér? (Forseti hringir.) Þetta hlýtur að vera eitthvað sem skiptir máli upp á það að geta ýtt þessari þróun áfram.