Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 102. fundur,  3. maí 2023.

Kjaragliðnun.

[16:12]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Stéttarfélögin hafa haft þann háttinn á um árabil að lögð hefur verið sérstök áhersla á að hækka lægstu laun hlutfallslega meira en önnur laun, sem er vel, en hefur það eitthvað hjálpað því fólki sem treystir á almannatryggingakerfið? Þegar um krónutöluhækkun er að ræða á alla þá sem starfa eftir ákveðnum kjarasamningi leiðir það af sér að lægstu laun hækka meira hlutfallslega en önnur laun. Þá hefur það einnig viðgengist að samið hefur verið um hækkun grunntaxta með krónutöluhækkun en síðan um almenna hækkun fyrir aðra þá sem fá greidd laun sem eru hærri en grunntaxtar. Með þessu vinnulagi er verið að gera tilraun til að hækka þá meira sem lægstu launin hafa en því miður hefur það oft haft í för með sér svokallað höfrungahlaup. Þessi aðferð hefur þó skilað þeim árangri að lægstu laun hafa hækkað umfram launavísitölu. Þegar ríkisstjórnin ákveður síðan hækkun á bótum almannatrygginga í fjárlögum er verið að miða við einhverja áætlaða hækkun vísitölu. Svo þegar vísitalan verði meiri en ætluð vísitala er stundum brugðist við með aukahækkun, en það er þó ekki alltaf þannig. Kjaragliðnun felur það í sér að bætur almannatrygginga fylgja ekki hækkun lægstu launa heldur meðaltalshækkun launavísitölu og það gefur augaleið að þegar ekki er verið að hækka bætur hlutfallslega jafn mikið og lægstu laun þá myndast þessi kjaragliðnun. Launavísitala er einungis meðaltalshækkun allra launa í landinu og með þessu er verið að breikka bilið milli þeirra sem eru á bótum almannatrygginga og þeirra sem eru á kjarasamningsbundnum launatöxtum.

Virðulegi forseti. Þetta fyrirkomulag þarf að laga. Við getum ekki látið um okkur spyrjast að við skiljum hópinn sem lakast stendur alltaf eftir.