131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Fsp. 2.

[15:07]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Nú fyrir helgi, nánar tiltekið þann 1. apríl, bárust þau gleðilegu tíðindi að fyrirtækið Spölur sem á og rekur Hvalfjarðargöngin hefði endurfjármagnað 5 milljarða kr. lán sín, gert nýjan samning við Íslandsbanka og að þessi endurfjármögnun mundi gera fyrirtækinu kleift að lækka gjaldskrána í Hvalfjarðargöngin verulega, allt að 38% fyrir þá sem nota göngin mest og njóta mestra afsláttarkjara.

Þetta er að sjálfsögðu mikil búbót fyrir þá sem notfæra sér þetta merkilega samgöngumannvirki sem Hvalfjarðargöngin eru. Fyrst þeim vatnaskilum er nú náð að tekist hefur að lækka verulega gjaldið í þetta mannvirki hlýtur að vakna sú spurning hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til ráðstafana svo að lækka megi enn frekar gjöldin í Hvalfjarðargöngin í ljósi þeirrar lækkunar sem gerð var af hálfu Spalar hf. um mánaðamótin. Hér vísa ég einkum til þess að í dag er í gildi skattlagning á þennan vegtoll, 14% virðisaukaskattur er lagður á gjöldin í göngin, og mig fýsir því að vita hvort hæstv. samgönguráðherra hyggist beita sér fyrir því að þessi skattur verði helst afnuminn.