131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Sala Símans, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:56]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég tek eftir því í umræðum sem þessari að fulltrúar stjórnarandstöðunnar líta oft á það sem heilagan sannleik sem segir í lausafregnum í fjölmiðlum. Það er alveg ljóst að um þessi mál hefur verið fjallað í ráðherranefnd um einkavæðingu, í framkvæmdanefnd um einkavæðingu og í ríkisstjórn og það hefur engin ákvörðun verið tekin með einhverju handsali, það liggur alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður á ekki alltaf að taka lausafregnir sem sannleika eða kjaftasögur úti í bæ. Það er orðið allt of algengt hér á Alþingi að þingmenn koma upp, hafa heyrt einhverjar kjaftasögur úti í bæ og tala um þær eins og einhvern heilagan sannleik á Alþingi Íslendinga. Ég held að hv. þingmenn ættu stundum að athuga hvort rétt sé að færa slíkar sögusagnir inn á hv. Alþingi.

Ég hef tekið eftir því að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja enn þá höfuðáherslu á grunnnetið og ég skil það ekki. Fram kemur í skýrslu sem framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun skila um málið sérstök greinargerð frá utanaðkomandi ráðgjafarfyrirtæki, ráðgjafarfyrirtækinu Admon, sem kemst eindregið að þeirri niðurstöðu að það sé ekki rétt að gera það. En hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar leggja til að ríkið haldi áfram í samkeppnisrekstri að því er varðar grunnnet. Ég hef ekki haldið því fram að það sé ekki hægt. Ég hef ekki haldið því fram eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa sagt að það sé ekki hægt að gera það. En ég spyr á móti: Af hverju í ósköpunum vill Samfylkingin, sem aðhyllist markaðsbúskap, viðhalda samkeppnisrekstri í rekstri grunnnets? Það liggur ljóst fyrir að aðrir munu reka grunnnet áfram og það mun ekki vera hægt að skylda símafyrirtækin til að skipta við eitthvert sérstakt grunnnetsfyrirtæki.

Herra forseti. Hér hefur verið spurt: Af hverju er fyrirtækið selt í einu lagi? Það var eindregin ráðgjöf fyrirtækisins Morgan Stanley að svo yrði gert eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hér hefur líka verið spurt: Af hverju að gera það að skilyrði að enginn einn aðili hafi meiri hluta í fyrirtækinu? Við í ríkisstjórninni erum þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að í fyrirtækinu sé einhver einn kjölfestufjárfestir, einn og sér, ráðandi í fyrirtækinu. Ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar eru þeirrar skoðunar að rétt sé að það sé aðeins einn aðili er það skoðun út af fyrir sig. Það er ekkert flóknara en það. En að það sé, eins og þeir segja maður eftir mann, gert til þess að hanna að einhverjir sérstakir aðilar geti komið þarna að er náttúrlega svo fráleitt (Gripið fram í.) að maður skilur ekki slíkt.

Sem betur fer er verulegur áhugi fyrir sölunni á Símanum. Það eru allar líkur á því að mjög margir muni bjóða í Símann og það verði ekki eins og þegar bankarnir voru seldir þegar aðeins þrír aðilar sýndu því áhuga. Það voru ekki fleiri. En hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala eins og fjöldinn allur af aðilum hafi sýnt því áhuga. Það var því miður ekki en ég er alveg viss um að það verður allt öðruvísi núna.