131. löggjafarþing — 102. fundur,  4. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[18:00]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti og hv. Jórsalafari. Málið sem hér er til umræðu er um að leggja skuli Þróunarsjóð sjávarútvegsins niður og það fjármagn sem í sjóðnum er skuli renna í ákveðinn sjóð og til ákveðinna verkefna.

Forsaga sjóðsins hefur verið rakin ítarlega og verkefni hans í gegnum tíðina. Sjóðnum hefur m.a. verið beitt til að úrelda skip, úrelda fiskvinnsluhús og hefur að flestra dómi verið beitt ótæpilega. Stundum hefur sú hagræðing sem ætlunin var að ná í gegnum þá úreldingu snúist í andhverfu sína, enda getur sú stefna að úrelda atvinnutækifæri fólks, úrelda vinnustaði fólks, leggja þá niður án þess að byggðarlagið fái einu sinni aftur það fjármagn sem verið er að verja í slíka úreldingu ekki verið happasæl stefna. Ég held að forsaga sjóðsins og allur ferillinn eigi sér ákveðna sorgarsögu gagnvart mörgum atvinnustöðum, mörgum fiskiþorpum meðfram ströndum landsins þar sem honum hafi verið beitt með ótæpilegum hætti og menn vildu að hefði ekki verið gert.

Þess vegna er kannski ekki til of mikils mælst að hluti af fjármagni sjóðsins sem hér um ræðir verði varið til að varðveita báta og önnur tæki sem tilheyrðu veiðum þeirra báta sem sjóðnum var beitt til að úrelda á sínum tíma, sem er stór hluti af atvinnulífi þjóðarinnar og menningarsögu. Ekki síst vegna þess að Alþingi hefur ályktað afdráttarlaust í þá veru, eins og hér hefur verið rakið ítarlega, bæði með þingsályktunartillögu sem lögð var fram á 125. löggjafarþingi 1999–2000 á þskj. 1186. Þar var samþykkt tillaga til þingsályktunar um varðveislu báta og skipa. Í texta þeirra tillögu stendur m.a., með leyfi forseta:

„Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Þingsályktunartillagan var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum við atkvæðagreiðslu sem afdráttarlaus vilji frá Alþingi. Svo nú, þegar við stöndum frammi fyrir að þetta geti gerst er eins og allir sem stóðu að þeim meiri hluta og eru áfram í meiri hluta á Alþingi hlaupi frá þeim ákvörðunum sínum, hlaupi frá þeirri viljayfirlýsingu Alþingis, geri ekki neitt með hana heldur setji undir sig hausinn og keyri áfram þá tillögu að þegar sjóðurinn verði lagður niður renni fjármagnið í Verkefnasjóð sjávarútvegsins — sem hefur ekki skilgreint og hefur ekki heimild til að leggja fram fé til verkefna eins og verndun á þessum skipum.

Þess vegna tel ég vinnubrögðin af hálfu Alþingis, eins og nú virðist stefna í af hálfu meiri hlutans, gagnvart þessum málum tveimur, þingsályktunartillögunni frá 1999 og málinu hér um að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins, vera þinginu til skammar. Hæstv. ráðherra hefur alls ekki svarað því með hvaða hætti hann ætlar að verða við þeirri einróma samþykkt Alþingis frá 1999 um að þróunarsjóðurinn komi að því að varðveita báta og skip sem honum var einmitt beitt til að úrelda á sínum tíma og er mikilvægur þáttur í atvinnusögu þjóðarinnar. Það er vitað mál að það er ekki gert að gagni nema til komi einhver slík heildstæð fjárveiting til að hægt sé að gera það átak sem þarf, sem svo er hægt að fylgja eftir með minna fjármagni seinna meir.

Hinn þáttur málsins er sá að ég er þeirrar skoðunar, og styðst þar við túlkun á fjárreiðulögum, að almennt eigi ekki að setja fjármagn með þessum hætti í einhverja afmarkaða sjóði á vegum ráðherra eða ráðuneytis. Hin almenna regla á að vera sú og er sú að við sölu eigna ríkisins eða við að leggja niður sjóði á vegum ríkisins, sem af einhverjum ástæðum var stofnað til, að fjármagn þeirra eigi að renna í ríkissjóð. Síðan er það Alþingis að taka ákvörðun um hvernig ráðstafa eigi fjármagninu á hverjum tíma eins og öðru fjármagni sem ríkissjóður fær. Það að ætla að fara að binda hér með þessum hætti að fjármagn úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins renni í einhvern annan sjóð á vegum ráðuneytisins, sjóð sem ekki hefur neina skipulagsskrá en veltir þó hundruðum milljónum króna eða milljarði algjörlega á ábyrgð ráðherra og einhverra sérvalinna er fráleitt. Sá sjóður hefur ekki neina formlega skipulagsskrá og ekki er kosið í hann sérstaklega stjórn eftir því sem ég veit best. Síðan á að fara að eyrnamerkja fjármagn úr sjóðum sem þessum til A-hluta stofnana eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu upphaflega og er reyndar enn þá bundið í þeirri einu samþykkt sem lýtur að Verkefnasjóði sjávarútvegsins, að hann skuli fyrst og fremst leggja fjármagn til Hafrannsóknastofnunar. Það er alveg fráleitt að vera að binda með þessum hætti og eyrnamerkja fjármagn til einstakra stofnana, A-hluta stofnana á vegum ríkisins, sem eiga að fá fjármagn sitt á fjárlögum.

Það er því með tvennum hætti verið að fara á svig við lög, annars vegar lög um fjárreiður ríkisins, þar sem verið er að setja fjármagn í annan sjóð, fjármagn sem á að renna beint í ríkissjóð og ríkissjóður á að ráðstafa því til hafrannsókna eða annarra verkefna eftir því sem Alþingi ákveður. Það ætti að vera hægt að treysta Alþingi til að verja þessu fé á sem ábatasamastan hátt fyrir samfélagið, eða er Alþingi ekki treyst?

Hinn þátturinn er sá: Við höfum þingsályktunartillögu um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skuli koma að varðveislu báta og skipa. Nú er verið að leggja hann niður, síðustu forvöð, ágætisforvöð úr því að þetta er í þessum farvegi, að taka 100–200 millj. kr. sem mætti vera til að styðja og gera myndarlegt átak í að varðveita þessi skip.

Frú forseti. Ég vildi láta þessa skoðun mína koma fram og tel að hæstv. ráðherra væri maður að meiri að koma og tilkynna að hann vildi leggja til að afgreiðslu málsins við 3. umr. yrði frestað og ráðherra fengi tækifæri til að taka málið aftur inn og skoða það með nefndinni — því eins og við vitum virðast ráðherrarnir ráða öllu á þinginu — og koma með málið aftur í viðunandi búning þannig að það geti orðið Alþingi til sóma en ekki meiri hlutanum og ríkisstjórnarvaldinu til skammar eins og við horfir ef þetta fer fram óbreytt.