132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

730. mál
[21:51]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni þá var þessi milljarður ekki að skila neitt sérstaklega miklu til landsbyggðarinnar. Ég man mjög vel hvernig þessi ákvörðun var tekin eða hvernig hún var rædd á hv. Alþingi. Það kom upp í hv. efnahags- og viðskiptanefnd — ég sat þar einmitt á þeim tíma — að leggja milljarð til hliðar og reyna að verja honum í upplýsingatæknifyrirtæki á landsbyggðinni. En þetta var ekki sérstaklega góð ráðstöfun að mínu mati þannig að ég held að ekki sé hægt að kalla það neitt stórmál þó að svona hafi farið. En ég skil það líka þannig eins og hv. þingmaður að við séum þá í raun að setja þessa fjármuni í sjóðinn, þ.e. það sem eftir er af þeim, og að engar sérstakar kvaðir séu á því fé.